Hundruð Spánverja komu saman í miðborg Madrídar í gær til þess að krefjast betri verndar fyrir hinsegin fólk. Undanfarna mánuði hafa hatursglæpir gegn hinsegin fólki á Spáni færst í aukana.

Samkvæmt spænska innanríkisráðuneytinu hefur hatursglæpum í landinu fjölgað um níu prósent á ári frá árinu 2014. Á föstudaginn kallaði Pedro Sánchez forsætisráðherra saman fund með ráðherrum sínum ásamt lögreglustjórum og öðru áhrifafólki í spænsku þjóðfélagi til þess að ræða leiðir til þess að draga úr atvikum sem slíkum.

Áköll til aðgerða hafa orðið háværari síðustu mánuði eftir að hjúkrunarnemi að nafni Samuel Luiz var barinn til dauða í A Coruña í Galisíu síðastliðinn júní. Talið er að Luiz hafi verið myrtur vegna kynhneigðar sinnar.

Upphaflega stóð til að mótmæla á miðvikudaginn vegna árásar gegn samkynhneigðum manni sem tilkynnti að hópur manna hefði ráðist inn á heimili hans og rist níðyrði um kynhneigð hans á rasskinnarnar á honum. Maðurinn dró tilkynninguna síðar til baka og sagði að þetta hefði verið gert með hans leyfi. Ákveðið var að láta mótmælin samt fara fram í ljósi annarra hatursglæpa af sama meiði.

Irene Montero, jafnréttisráðherra Spánar, sagði fyrr í vikunni að hatursglæpum gegn hinsegin fólki hefði fjölgað um rúm fjörutíu prósent á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 og brýndi fyrir Spánverjum að gera ekki lítið úr alvarleika ástandsins þótt tilkynningin um árásina í Madríd hafi reynst fölsk.