„Við erum aðeins eitt hundrað dögum frá hjarðónæmi, það er að segja frá því að 70 prósent þjóðarinnar verði bólusett og þar með ónæm,“ sagði Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, í gær.

Sánchez lét þessi orð falla í opinberri heimsókn í Grikklandi að því er spænska blaðið El País segir frá. Kemur fram að 18. ágúst sé áætlað að framangreindu markmiði verði náð. Fram til þessa hafi 19 milljónir bóluefnaskammta gegn Covid-19 verði gefnir á Spáni og 28 prósent þjóðarinnar fengið fyrsta skammt og að 12,6 prósent séu fullbólusett.

Er þetta í fyrsta skipti sem yfirvöld á Spáni nefna tiltekna dagsetningu sem stefnt sé að varðandi hjarðónæmið. Forsætisráðherrann sagði að nú sjái Spánverjar fyrir endann á erfiðleikunum.

Að sögn El País er aldurshópurinn áttatíu ára og eldri nú nánast fullbólusettur á Spáni. Nú sé áherslan á þá sem séu 70 til 79 ára og byrjað sé að gefa næsta aldurshópi fyrir neðan fyrstu bóluefnaskammtana.