Tíu héruð á Spáni búa sig nú undir hitabylgju sem búist er við því að skelli á landinu á morgun og endist í fimm eða sex daga. Samkvæmt frétt El País er áætlað að fundið verði fyrir hitabylgjunni um allan Spán nema í Kantabríu og hluta Galisíu. Spænska ríkisveðurstofan Aemet hefur spáð því að hitinn muni ná hámarki á föstudaginn og sunnudaginn og muni þá nema rúmum fjörutíu gráðum á selsíus.

Aemet hefur gefið út appelsínugula viðvörun í héruðunum tíu vegna hitabylgjunnar. Héruðin eru Córdoba, Granada og Jaén í Andalúsíu, Huesca og Zaragoza í Aragon, Majorka á Baleareyjum, Toledo, Albacete og Cuenca í Kastilíu-La Mancha, Lleida í Katalóníu og Alcalá de Henares á stórborgarsvæði Madrídar.

Áætlað er að hitabylgjan skelli á fáeinum dögum eftir að fyrsti meiriháttar skógareldur sumarsins í Valensíu leiddi til þess að forða varð um 150 manns frá heimilum sínum í La Safor yfir helgina.

Spænska heilbrigðisráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um það hvernig þrauka skuli hitabylgjuna. Er fólki meðal annars ráðlagt að drekka nóg af vatni, halda sig innan dyra, halda kælingu í gangi og borða léttar máltíðir.