Spænsk yfirvöld vonast til þess að geta tekið á móti ferðamönnum frá ríkjum utan Evrópu í júní. Það veltur þó á framgangi áætlana Evrópusambandsins um rafræn skírteini fyrir þá sem hafa verið bólusettir gegn COVID-19, náð sér eftir smit eða fengið neikvæða niðurstöðu úr COVID-prófi.
Ríki sambandsins vilja tryggja að Ísland, Noregur og Sviss taki einnig þátt í verkefninu en ekkert hefur verið rætt við yfirvöld í Bretlandi vegna málsins. Búist er við því að bólusettir Bandaríkjamenn geti ferðast að vildi til Evrópu í sumar.
Fernando Valdés, ferðamálaráðherra Spánar, sagði á blaðamannafundi að tilraunir verði gerðar með fyrirkomulag ferðalaga í maí og vonandi geti landið tekið við ferðamönnum hvaðanæva af úr heiminum í júní. Það fari þó eftir því hvernig málum vindur fram á vettvangi Evrópusambandsins. Spánn reiðir sig mjög á ferðaþjónustu og faraldurinn, sem lamað hefur ferðamannaiðnaðinn, hefur leikið efnahag landsins grátt.
Evrópusambandið hefur unnið að því að útbúa rafræn skírteini svo auðvelda megi ferðalög og verða áætlanir um slíkt lagðar fyrir Evrópuþingið innan skamms. Skírteinin verða útbúin með QR-kóðum þar sem vistaðar eru persónuupplýsingar ferðamanna. Sambandið vinnur nú að því með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni til að tryggja að skírteinin verði tekin gild utan ríkja sambandsins.