Alls hafa 738 látist á Spáni undanfarinn sólarhring af völdum kórónaveirunnar sem þýðir að Spánn er komið fram úr Kína í dauðsföllum af völdum veirunnar.

Þetta kom fram í ávarpi heilbrigðisráðherra Spánar í dag, Salvador Illa. Þá greindi varnarmálaráðherra Spánar frá því að hermenn hefðu komið að eldra fólki látnu á heimilum sínum undanfarna daga.

Alls höfðu 47.610 manns greinst með veiruna á Spáni í lok dags í gær og þar af 3434 látið lífið. Um tuttugu þúsund hafa látið lífið víðsvegar um heiminn vegna veirunnar.

Ítalía vermir áfram efsta sætið þegar kemur að fjölda dauðsfalla með 6820 staðfest dauðsföll. Í Kína þar sem veiran kom fyrst fram hafa 3281 manns látist en aðeins fjórir í gær.