„Það verður að segjast eins og er að ég er furðu lostin,“ segir Ásta María Sigurðardóttir í bréfi til byggðaráðs Rangárþings eystra þar sem hún gagnrýnir lausagöngu búfénaðar.

Ásta býr rúma 500 metra frá þjóðvegi 1. Hún kveðst í bréfinu undrast hversu mikið af sauðfé gangi laust við þjóðveginn.

„Í sumum tilfellum er hægt að tala við bændur, og kindurnar eru sóttar, en þær koma alltaf aftur. Ár eftir ár, sömu skepnurnar. Við erum farin að þekkja þær. Aðra bændur er ekki hægt að tala við, og þeir vísa alltaf ábyrgðinni á eitthvað annað en sjálfa sig,“ skrifar Ásta.

Að sögn Ástu eru kindurnar spakar og vanar flauti og hamagangi og gangi yfir veginn þegar þeim sýnist og lömbin á eftir þeim.

„Ég er bara hreinskilnislega mjög stressuð yfir því að það verði þarna stórslys einhvern daginn,“ skrifar Ásta og spyr hvers vegna lausaganga búfjár sé ekki bönnuð í Rangárþingi eystra.

Ásta segir að ástandið sé líka mjög slæmt undir Eyjafjöllum. „Það er ekki hægt að verða þekkt sveitarfélag fyrir það að það sé sérstaklega hættulegt að aka hér um því maður geti ekið á kindur, hesta, kálfa eða hvað sem er, vegna þess að það má bara vera út um allan veg.“

Byggðaráð Hvolsvallar þakkaði Ástu fyrir erindið og tók undir mikilvægi þess að tryggja öryggi á vegum og vísaði málinu til umfjöllunar í landbúnaðarnefnd og samgöngu- og umferðarnefnd.