Tveir af þremur Spánverjum, sem voru ákærðir fyrir að að flytja inn talsvert magn af fíkniefnum til landsins, hafa verið dæmdir í fangelsi. Þrír Spánverjar voru alls ákærðir í málinu af héraðssaksóknara, tvær konur og einn karlmaður búsettur hér á landi, meðal annars fyrir að flytja inn fimm kíló af hassi, fimm þúsund e-töflur og 100 stykki af LSD.

Karlmaðurinn er dæmdur í tveggja ára fangelsi og önnur konan í átján mánaða fangelsi. Ákveðið var að skilja málin í sundur og hlaut því önnur konan ekki dóm í gær. Við skýrslutöku sögðu þau öll að annar karlmaður, búsettur á Íslandi, hafi skipulagt ferðina.

„Við skoðun tollgæslu á farangri hennar fundust tveir jólapakkar með ætluðu hassi í og lofttæmdar umbúðir, sem voru saumaðar inn í úlpu, í farangurstösku hennar“

Við skoðun tollgæslu á farangri hennar fundust tveir jólapakkar með hassi og lofttæmdar umbúðir, sem voru saumaðar inn í úlpu, í farangurstösku hennar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fylgdarkonan varð burðardýr

Annarri konunni, sem var fylgdarkona á Spáni, var gefið að sök að hafa þann 19. desember síðastliðinn staðið að innflutningi á nær fimm kílóum af hassi, rúmum fimm þúsund e-töflum (MDMA) og 100 stykkjum af LSD. Konan flutti fíkniefnin með flugi frá Amsterdam, með millilendingu í Stokkhólmi, og þaðan til Íslands. Fundust efnin í ferðatösku konunnar sem hún hafði meðferðis við komuna til landsins.

„Ákærða var stöðvuð af tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar hún var að koma frá Stokkhólmi með flugi Icelandair. Við skoðun tollgæslu á farangri hennar fundust tveir jólapakkar með ætluðu hassi í og lofttæmdar umbúðir, sem voru saumaðar inn í úlpu, í farangurstösku hennar,“ segir í dómnum.

Konan var handtekin og í skýrslutöku sagði hún að maður, sem kallaður er A í dómnum, hafi boðið henni til Amsterdam. Hún kynntist honum fyrir nokkrum árum á Spáni þegar hún starfaði sem fylgdarkona.

„Meðan A hafi verið á hótelinu um kvöldið hafi honum farið að líða illa og m.a. hóstað og hann hafi haldið að hann væri jafnvel með COVID-19.“

Maðurinn (A) hitti konurnar tvær og manninn í Amsterdam og fékk þau til að smygla fíkniefnum til Íslands. Hann varð hins vegar veikur, mögulega af COVID-19, og komst ekki sjálfur í ferðina. Að sögn fylgdarkonunnar á hann heima á Íslandi.
Fréttablaðið

Sendi henni skilaboð á Instagram

„Á tímabili hafi hún misst sambandið við A en hann síðan haft samband við hana á Instagram skömmu áður en hann bauð henni til Amsterdam. A hafi greitt fyrir flugmiða ákærðu og vinkonu hennar og fyrir hótel.“

Í Amsterdam kom maðurinn (A) konunni á óvart með flugmiða til Íslands. Hún hafi ætlað að hitta vini og fjölskyldu mannsins og ferðast um Ísland eins og ferðamaður. Sagðist hún ekki hafa vitað um reglur varðandi sóttkví á Íslandi. Maðurinn hafi orðið veikur fyrir flugið og hún því farið ein í ferðina.

„Meðan A hafi verið á hótelinu um kvöldið hafi honum farið að líða illa og m.a. hóstað og hann hafi haldið að hann væri jafnvel með COVID-19. A hafi síðan yfirgefið hótelið en komið þangað aftur morguninn eftir og skipt um tösku við ákærðu.“

Konan sagðist ekki hafa vitað að fíkiefnin hafi verið í töskunni. Dómari í Héraðsdómi Reykjaness telur þessa skýringu ólíklega.

„Verður að telja yfirgnæfandi líkur á því að ákærða hafi vitað hvers kyns var áður en hún lagði af stað til Íslands og hver tilgangur með ferð hennar hingað til lands hafi verið.“

Fylgdarkonan sagðist ekki hafa vitað að fíkiefnin voru í töskunni.
Fréttablaðið/Getty images

Fíkniefni í dömubindi og smokk

Hinni konunni og kærasta hennar er gefið að sök að hafa þann 20. desember staðið að innflutningi á rúmum 250 grömmum af metamfetamíni, ætluðu til söludreifingar. Sú kona flutti fíkniefnin til Íslands með flugi frá Kaupmannahöfn.

Lögreglan grunaði að parið tengdist fyrrnefndri konu og voru þau því stöðvuð af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Við líkamsleit fundust fíkniefni í nærbuxum konunnar.

„Hún framvísaði smokk með fíkniefnum í sem hún tók úr leggöngum sínum,“ segir í dómnum. Konan sagðist hafa verið neydd af kærasta sínum til að flytja fíkniefnin til Íslands og að annar maður, sem hún var hrædd við, hafi skipulagt ferðina. Hún hafi vitað að hún væri að smygla inn dópi.

Kærasti konunnar kvaðst hafa búið hér á landi í um fjögur ár. Hann skýrði lögreglu svo frá að hann hafi átt að fá þrjú þúsund evrur fyrir að flytja fíkniefnin til Íslands. Annar maður, sem átti heima á Íslandi, hafi keypt farmiða og greitt fyrir hótel. Hann hafi fengið fyrirmæli að senda þrjár aðrar stúlkur með fíkniefni til Íslands.