Pizzastaðurinn Spaðinn hefur lokað útibúi sínu við Fjarðargötu í Hafnarfirði. Þetta staðfesti Þórarinn Ævarsson, framkvæmdarstjóri Spaðans, við Fréttablaðið.
Þórarinn segir að þeir hafi skellt í lás í lok apríl, en ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um hvað skuli gera í framhaldinu.
„Þetta gekk verr en við áttum von á, en við vorum búin að reyna þetta í eitt og hálft ár. Eins ömurlegt og það er, þá er einfaldlega bara betra að loka en að vera í þeim rekstri eins og þetta leit út,“ segir Þórarinn.
Aðspurður fullyrðir hann að meginástæðan hafi verið Covid faraldurinn sem hafi farið illa með reksturinn. Þeir séu þó að hugsa næstu skref.
„Einn möguleikinn er sá að blása aftur til sóknar á þessum stað. Við ætlum að sjá hvernig sumarið þróast og tökum þá endanlega ákvörðun í haust hvað við gerum,“ segir Þórarinn.