Innan Sjálfstæðisflokksins var því spáð fyrir nokkrum vikum að Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra kynni að lenda í vandræðum með að afla stuðnings við mál eftir að hún gagnrýndi sölu á hlut Íslandsbanka og upplýsti um athugasemdir á fundum í aðdraganda sölunnar.

Fjármálaráðuneytið, þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og ábyrgðarmaður bankasölunnar, gegnir ráðherradómi, hefur í bréfi til atvinnuveganefndar Alþingis gagnrýnt frumvarp Lilju um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Þar segir að frumvarpið sé ófjármagnað og skorti samráð við samningu þess.

Lilj gæti átt á hættu að einangrast

Hinn 11. apríl síðastliðinn sat Friðjón Friðjónsson, sem nú er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fyrir svörum á Fréttavaktinni á Hringnraut. Rætt var um eftirmál Íslandsbankasölu og sagði Friðjón að Lilja gæti með „sólóútspili“ sínu átt á hættu að einangrast eftir gagnrýni hennar.

„Staða Lilju er áhugaverð, þegar Lilja þarf á einhverju að halda í framtíðinni frá félögum sínum í ríkisstjórn, ef svo ber undir, er ekkert víst að hún eigi mikið inni, hvorki hjá Bjarna, Katrínu né Sigurði Inga.“

Fréttablaðið náði ekki að bera undir Lilju hvort hún telji tengsl milli athugasemda fjármálaráðuneytisins nú og gagnrýni hennar á bankasöluna.