Spáð er að losun gróðurhúsaloftegunda hér á landi nái hámarki á þessu ári en fari svo lækkandi. Þessu spáir þar til gerð loftslagsstofnun Evrópusambandsins sem leggur mat á virkni stefnu og aðgerða ríkja í loftslagsmálum.

Um þetta er fjallað í ársskýrslu Umhverfisstofnunar sem birt var í gær.

Íslands skilaði skýrslu til Evrópusambandsins í mars 2019 sem leggur mat á virkni stefnu og aðgerða ríkja í loftslagsmálum. Í því er spáð fyrir um hve hratt samdráttur muni eiga sér stað og var því spáð að losun næði hámarki árið 2021 eins og fyrr segir og lækki svo.

Mynd/AFP

Losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2018 og 2019 dróst saman um 2 prósent hér á landi. Það er mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012 en losun hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2011.

„Í ljósi þess að losunarbókhald sýndi samdrátt á milli áranna 2018 og 2019 verður áhugavert að sjá hvort þessum toppi hafi þegar verið náð,“ segir í skýrslunni.

Níu ár eru til stefnu til að ná markmiði Íslands sem er 29 prósenta samdráttur í losun árið 2030. Horft er aðallega til vegasamganga í samdrætti losunar, sú uppspretta losunar fellur undir beina ábyrgð Íslands. Annað sem dróst saman á milli 2018 og 2019 eru losun frá urðun á úrgangi, fiskiskipum og nytjajarðvegi, segir í skýrslunni.

Undirskriftir og mótmæli vegna loftslagsmála á Austurvelli 2019
Fréttablaðið/Ernir

Skýrslu um framreiknaða losun ber að skila á tveggja ára fresti og næstu skil verða á næstu vikum eða á vordögum 2021 eins og krafa er um. Þá verður losun gróðurhúsalofttegunda áætluð fram til ársins 2040 með tilliti til þeirra aðgerða sem settar voru fram í uppfærðri Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem gefin var út 2020.

Hé er um að ræða lykilverkfæri í að meta jafnóðum hverju fyrirhugaðar loftslagsaðgerðir skila í samdrætti í losun og tryggja að þær dugi til að ná markmiðum stjórnvalda, stendur í nýju ársskýrslunni.