Banda­ríska veður­stofan hefur varað við mikilli hita­bylgju í suð­vestur­ríkjum Banda­ríkjanna um helgina. Gæti hitinn á stöku stað, til dæmis í Kali­forníu og Texas, farið í hátt í 50 gráður.

Slíkur hiti getur stefnt heilsu fólks í hættu og hafa yfir­völd hvatt fólk til að vera á varð­bergi. „Drekkið vatn, meira en venju­lega, og forðist það að drekka á­fengi eða sykraða og koffín­ríka drykki,“ segir í við­vörun Banda­rísku veður­stofunnar. Búist er við því að hita­bylgjan gangi niður eftir helgi.

Spár gera ráð fyrir að hiti fari í 43 gráður í Las Vegas og 46 gráður í San Diego um helgina. Á þriðju­dag fór hitinn í Rio Grand Villa­ge, skammt frá landa­mærum Mexíkó, í 47 gráður og í borgununum Austin og San Antonio í Texas mældust 39 og 40 gráður.

Í um­fjöllun CNN kemur fram að veður­fræðingur búist við heitara sumri en venju­lega í Banda­ríkjunum og er það í takt við þróun síðustu ára­tuga. Bent er á það að meðal­hitinn í Phoenix í Arizona í júní­mánuði um miðja 20. öldina hafi verið 28,7 gráður. Síðustu ár hefur meðal­hitinn í borginni í júní­mánuði aftur á móti verið 34,4 gráður.