Tvö hundruð og fimm­tíu milljón manns eiga nú á hættu á að enda í sára­fá­tækt sam­kvæmt spá Oxfam International, al­þjóð­legum bar­áttu­sam­tökum gegn fá­tækt. Hækkað matar- og eldsneytis­verð vegna inn­rásar Rúss­lands í Úkraínu spilar þar stóran þátt.

Hækkað verð á dag­legum nauð­synjum kemur fast á hælum efna­hags­krísunnar sem hefur orðið til vegna heims­far­aldurs Co­vid-19. Oxfam kallar eftir al­þjóð­legri við­spyrnu gegn þessari þróun, meðal annars með því að fella niður lána­greiðslur fá­tækari landa.

„Án rót­tækra og tafar­lausra að­gerða gætum við þurft að horfa upp á veiga­mesta hrun mann­kyns í sára­fá­tækt og þjáningu sem gerst hefur á okkar tíma,“ segir Gabriela Bucher, al­þjóða­fram­kvæmda­stjóri Oxfam, í sam­tali við The Guar­dian.

Skuld­setin lönd gætu þurft að draga úr almennri þjónustu til að koma til móts við hækkuð gjöld við innflutning á eldsneyti og matvöru. Að fella niður lána­greiðslur á þessu ári gæti hjálpað þessum löndum mikið, sam­kvæmt Oxfam.

Vilja auka skatt á fyrirtækjum sem græða á ástandinu

Sam­tökin hafa kallað eftir hækkuðum skatti á hinu ríkustu og á fyrir­tæki sem kunna að hafa grætt á krísum á borð við heims­far­aldurinn og inn­rásina í Úkraínu.

Verð á mat­vörum var þriðjungi hærra í mars á þessu ári en á sama tíma árið áður sam­kvæmt Mat­væla- og land­búnaðar­stofnun Sam­einuðu þjóðanna.

Búist er við því að á­standið hafi sér­stak­lega mikil á­hrif á Mið­austur­lönd og hluta af Afríku sem reiða sig á inn­flutning á korni frá svæðunum í kringum Svarta­haf.

„Við höfnum al­farið þeirri hug­mynd að ríkis­stjórnir hafi ekki efni á því að reisa allt fólk úr fá­tækt og hungri og tryggja heilsu þeirra og vel­ferð. Við sjáum einungis skort á efna­hags­legu í­myndunar­afli og pólitískan vilja til að láta af því verða,“ segir Bucher.