Þrálát hæð suður í höfum hefur þröngvað hverri lægðinni af annarri yfir Ísland það sem af er júlímánuði, en Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir að hæðin sú arna muni gefa eftir í ágúst, sem séu góðar fréttir fyrir Íslendinga.

Háþrýstisvæði á hafsvæðinu vestur af Bretlandseyjum séu algeng, en hafi verið óvenjulega þaulsætin þar um slóðir á síðustu vikum, með þeim afleiðingum að tíðin hafi verið rysjótt á Íslandi.

En breytingar séu í kortunum í ágúst með stöðugra sumarveðri á Íslandi en verið hefur í júlí.