Isavia spáir því að 7,8 milljónir farþega munu fljúga í gegnum Keflavíkurflugvöll árið 2023. Ferðamannaspá Isavia gerir einnig ráð fyrir 2,2 milljónum ferðamanna sem munu sækja Ísland heim sama ár og verður það næststærsta ferðamannaár í sögu landsins.

Þetta kom fram á fundi Isavia þar sem yfir farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir árið 2023 var kynnt í Norðurljósasal Hörpu í morgun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnaði fundinn og lagði áherslu á að það væri landafræði Íslands sem væri uppspretta hagvaxtar og velmegunar.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir að 24 flugfélög munu fljúga til og frá Íslandi á næsta ári og er stefnt að viðhalda 51 heilsárs áfangastöðum yfir veturinn.

Ísland hefur náð til baka 95 prósent af allri þeirri ferðaþjónustu sem landið tapaði í faraldrinum, miðað við 50 prósenta endurheimtan á alþjóðavísu.