„Við höfum leitað svara við því frá heilbrigðisráðuneytinu, hvað trompar hvað í reglunum,“ segir Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins. Hann opnaði dyrnar að líkamsræktarstöð sinni í gær samkvæmt nýjum sóttvarnareglum en búningsklefar, sturtur og salerni voru lokuð.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær er greitt aðgengi að bað- og sturtuaðstöðu og fullbúinni snyrtingu, meðal forsendna starfsleyfa frá Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga fyrir íþróttamannvirki og líkamsræktarstöðvar. Skylt er að líkamsræktarstöðvar veiti gestum slíka aðstöðu.

Þröstur segir að ýmsir álíka þættir hafi komið upp eftir að Sporthúsið var opnað aftur í gær, til dæmis hvernig tryggja skuli brunavarnir þar sem inn- og útgangar eru hólfaðir niður í sóttvarnahólf. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá ráðuneytinu hafa þau metið það svo að sóttvarnir séu mikilvægari en aðgengi að búningsaðstöðunni og salernum, svo við tókum þessa ákvörðun út frá því,“ segir Þröstur og bætir við að þetta snúist um að „gera það besta úr ömurlegum aðstæðum.“

Þá segir hann fjölda viðskiptavina hafa krafist þess að stöðvarnar yrðu opnaðar eftir að nýjar reglur um sóttvarnir tóku gildi í gær. „Við erum með um tólf þúsund viðskiptavini og á milli tíu og tuttugu prósent þeirra setja algjörlega þá kröfu að við opnum af því við megum það,“ útskýrir hann.