Sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna (CDC) mælir með því að ó­léttir ein­staklingar verði bólu­settir gegn Co­vid-19, byggt á nýjum greiningum sem benda ekki til aukinnar hættu á fóstur­láti.

Tals­menn CDC segjast ekki hafa fundið neitt sem bendir til þess að ó­léttu fólki stafi hætta frá bólu­setningum, hvorki í nú­verandi rann­sóknum sínum né fyrri rann­sóknum. Ó­léttum ein­stak­lingum stendur nú til boða öll þrjú bólu­efnin sem notast er við í Banda­ríkjunum, bólu­efni Pfizer, Moderna eða John­son & John­son.

Stofnunin hafði áður ekki mælt með því að ó­léttir ein­staklingar fengju bólu­setningu en mælst til þess að fólk ræddi það við lækna sína og heil­brigðis­stofnanir.

Sascha Ellington, hóp­stjóri hjá CDC, segist vilja auka bólu­setningar á meðal ó­léttra ein­stak­linga en að­eins 23 prósent þessa hóps hafa fengið fyrsta skammt bólu­efnis enn sem komið er. Þá er stofnunin að vinna að því að gera fæðingar­læknum og kven­sjúk­dóma­læknum kleift að veita bólu­setningu.

„Við viljum að konur séu verndaðar. Við erum ekki að sjá nein hættu­merki þannig að ávinningur bólu­setninga vegur þyngra en öll mögu­leg eða ó­þekkt hætta,“ segir hún.

Hættan á því að veikjast al­var­lega af Co­vid-19 eykst til muna á með­göngu auk þess sem það að smitast af Co­vid á með­göngu eykur líkurnar á fæðingu fyrir tímann.

CDC mælir nú með bólu­setningu fyrir alla 12 ára og eldri, þar með talið fólk sem er á með­göngu, með barn á brjósti eða er að reyna að eignast barn.

„Við erum með­vituð um allar mýturnar sem hefur verið í gangi í sam­bandi við frjó­semi. Þær eru ekki byggðar á neinum stað­reyndum. Það eru engin vísindi sem styðja þær. Við vonum að þetta hjálpi,“ segir Ellington.