Það er sóttvarnalæknir eða löglærður fulltrúi landlæknis sem ber lögmæti frelsissviptingar í sóttvarnaskyni undir dóm en ekki einstaklingur sem er ósáttur við þá frelsissviptingu.
Ómar R. Valdimarsson, lögmaður, hefur sent kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir hönd skjólstæðings síns sem dvelur gegn vilja sínum á sóttvarnahóteli á grundvelli reglugerðar heilbrigðisráðherra. Það er ekki í samræmi við fyrirmæli sóttvarnalaga en samkvæmt þeim er það sóttvarnalæknir sem setur fram skriflega kröfu um staðfestingu á gildi slíkrar ákvörðunar, hafi henni verið mótmælt.
Í 15. gr. laganna segir: „Nú óskar málsaðili eftir því að ákvörðun verði borin undir dóm og skal sóttvarnalæknir þá svo fljótt sem verða má setja fram skriflega kröfu um staðfestingu á gildi ákvörðunarinnar sem afhent skal dómstjóra héraðsdóms í þinghá þar sem málsaðili dvelst þegar ákvörðun er tekin."
„Í slíku dómsmáli skal sóttvarnalæknir, eða eftir atvikum löglærður fulltrúi embættis landlæknis, talinn sóknaraðili málsins og sá er stjórnvaldsákvörðunin beinist gegn varnaraðili þess,“ segir einnig í 15. gr. sóttvarnalaga.
Héraðsdómur Reykjaness ætti að sjá um málið
Þá skal fyrrnefnd krafa sóttvarnalæknis afhent dómstjóra héraðsdóms í þinghá þar sem málsaðili dvelst þegar ákvörðun er tekin. Þar sem sú ákvörðun sem um ræðir í þessu tilviki var tekin í Leifsstöð yrði krafan afhent dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness, en lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson, mun hafa vísað málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur.

„Það fer eftir því hvor leiðin er farin að því að koma málinu fyrir dóm,“ segir Ómar um þessa lagatúlkun. Hann vísar til 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar um heimild til þess að fá kveðið á um lögmæti frelsissviptingar af dómstól.
„Eins og sóttvarnarlögin eru sett upp, þá er gert ráð fyrir því að sóttvarnarlæknir færi málið fyrir dómstóla. Hins vegar er aðilum á engan veg leiðbeint um hvernig staðið skuli að þessu,“ segir Ómar og bætir við: „Allt að einu hef ég vakið athygli sóttvarnarlæknis á kröfunni og krafist þess að hann beini málinu til héraðsdóms. Auk þess sem ég hef skotið málinu þangað sjálfur líka. En auðvitað er það þannig að stjórnarskráin trompar þessa hrákasmíð, sem ný sóttvarnarlög eru.“
Ekki náðist í sóttvarnalækni vegna málsins í kvöld.