Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir samfélagslegt ónæmi vera að myndast hér á landi í kjölfar bólusetninga gegn Covid-19. „Þessi smit sem eru að greinast bæði hér innanlands og á landamærunum eru ekki að dreifa úr sér, sem segir okkur að það er komið nokkuð gott samfélagslegt ónæmi,“ segir hann.

Þórólfur segir þó mikilvægt að muna að faraldurinn sé ekki búinn og að ekki megi sofna á verðinum. „Fólk sem til dæmis er ekki fullbólusett þarf að gæta vel að sér að smitast ekki og ég tala nú ekki um þá sem eru óbólusettir,“ segir Þórólfur og bendir á mikilvægi þess að allir hugi áfram að sínum einstaklingsbundnu sóttvörnum.

„Þá þurfum við að huga vel að okkur varðandi ný afbrigði, faraldurinn er í mikilli útbreiðslu í mörgum löndum, til dæmis í Bretlandi þar sem hann er í mikilli aukningu þannig að þetta er ekki búið þó að þetta gangi vel hjá okkur,“ segir Þórólfur.

Í vikunni stendur til að bólusetja um 33 þúsund einstaklinga með þremur tegundum bóluefna hérlendis. Á morgun fá um 18 þúsund manns bóluefni Pfizer, þar af fá 8.500 manns fyrri bólusetninguna en tvær sprautur þarf af efninu til að einstaklingur teljist fullbólusettur.

Þórólfur segir að óþarfi sé að hræðast bóluefni frá Janssen umfram önnur.
Fréttablaðið/Aðsend

Um fimm þúsund manns var ætlað að fá seinni skammt af bóluefni frá AstraZeneca, sem dregst þó fram yfir helgi vegna seinkunar á sendingu af efninu. Í dag stendur til að bólusetja tíu þúsund manns með bóluefni frá Janssen.

Í apríl var bólusetningum með bóluefni frá Janssen frestað hér á landi eftir að upp komu tilfelli alvarlegra aukaverkana af bóluefninu í Bandaríkjunum. Aðspurður segist Þórólfur ekki búast við dræmari þátttöku í bólusetningu í dag en þegar önnur bóluefni eru gefin, óþarfi sé að hræðast bóluefni frá Janssen umfram önnur.

„Það geta verið aukaverkanir með þessum bóluefnum, þær eru mjög sjaldgæfar og miklu sjaldgæfari heldur en af Covid-sýkingu,“ útskýrir Þórólfur. „Og það eru bara tveir kostir í boði, annaðhvort að fá Covid eða að fá bólusetningu,“ bætir hann við.

Þannig að ungar konur ættu ekki að hræðast bólusetningu með Janssen?

„Nei, nei,“ segir Þórólfur.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, tekur í sama streng og Þórólfur. „Öll bóluefnin eru góð,“ segir Ragnheiður. „Við erum að tala um aukaverkanir sem eru svo örlitlar að það er örugglega meiri hætta af því að bara fara út í búð,“ bætir hún við.

Samkvæmt tillögum um tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum innanlands var stefnt að því að síðari hluta júní hefðu 75 prósent þjóðarinnar fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni og í kjölfarið yrði öllum takmörkunum innanlands aflétt.

Hingað til hafa allar áætlanir staðist og segja bæði Þórólfur og Ragnheiður gleðilegt hversu hratt hefur gengið að bólusetja þjóðina en aðspurður segir Þórólfur erfitt að segja hvenær hægt verði að aflétta öllum takmörkunum. „Við erum að feta okkur í átt að því.“