Íslensk erfðagreining vinnur nú aftur að skimun einstaklinga fyrir COVID-19 í samvinnu við sóttvarnalækni. Skimunin fer fram í Turninum í Kópavogi.

Hófst skimun á ný hjá fyrirtækinu eftir að COVID-19 smitum tók að fjölga til muna hér á landi. Eitt smit greindist hjá Ís­lenskri erfða­greiningu í gær.

Tilgangur skimunarinnar er að kanna útbreiðslu veirunnar hér á landi svo hægt sé að meta þörf fyrir frekari aðgerðir. Þá er vonast til að hægt verði að rekja uppruna smitanna sem nú eru í gangi.

Fólk sem er boðað í skimun fær boð um þátttöku með textaskilaboðum og hvetur sóttvarnarlæknir alla sem fá boð til að taka þátt.

Fram kemur í tilkynningu á vef embættis landlæknis að þrír mismunandi hópar verði boðaðir í skimun.

  • Einstaklingar í sóttkví eftir að hafa verið í samskiptum við einstaklinga sem greindust með veiruna nú nýlega. Fólk á landsbyggðinni í þessari stöðu fær leiðbeiningar um hvar og hvenær það geti farið í sýnatöku hjá heilsugæslunni.

  • Fólk sem tengist einstaklingum í einangrun á einhvern hátt, sem ákveðið var að þyrftu þó ekki að fara í sóttkví, til dæmis, ef talsverður tími var frá samskiptum við þann smitaða.

  • Handahófskennt úrtak á þeim svæðum þar sem sem smit hafa komið upp undanfarið.

„Athugið að einstaklingar í sóttkví mega ekki fara inn í húsnæði Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna í Turninum, heldur eru sýni tekin fyrir utan eins og hjá einstaklingum með einkenni COVID-19 hjá heilsugæslunni. Mikilvægt er að hafa í huga að neikvætt sýni hjá einstaklingi í sóttkví vegna tengsla við þekkt smit verður ekki til þess að aflétta sóttkví.“