Víkingur á möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn um helgina, þegar liðið mætir Leiknismönnum á Víkingsvellinum á laugardag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segjast treysta fólki til að gleyma ekki sóttvarnareglum í gleðinni.

Aðspurður um hvort það sé hætta á því að fólk gleymi sér ef Víkingar vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í þrjátíu ár, segir Víðir í samtali við Fréttablaðið að það geti gerst.

„Það er hætta á því að menn láti gleðina bera skynsemina ofurliði en ég held nú, út frá því sem maður hefur heyrt frá þeim, að þeir séu alveg meðvitaðir um þetta og með sín plön um hvernig þeir ætli að gera þetta eins skynsamlega og hægt er. Þeir undirbúa sig fyrir að fagna gríðarlega,“ segir Víðir.

Þórólfur bætir við að hann treysti á að fólk fari eftir þeim reglum sem eru í gangi og passi sig. „Það væri ánægjulegt ef menn geta glaðst yfir einhverjum titli, það er náttúrulega ekki útséð um það kannski enn þá, en ég vona bara að þau fari eftir reglunum,“ segir Þórólfur enn fremur.

Víðir bendir á að Víkingar hafi gefið út að þeir muni krefja gesti um hraðpróf fyrir leikinn, en þegar hraðprófum er beitt mega 1.500 manns koma saman í hverju hólfi í stað 500. Vísar hann til þess að Víkingur hafi í fyrri leikjum verið með tvö aðskilin hólf og því geti þau tekið við allt að þrjú þúsund manns.

„Svo geta þeir hugsanlega bætt við hólfum ef þeir eiga von á fleirum, en þeir hafa greinilega hugsað það að fara þessa leið og hafa þá heimild til svona viðburða,“ segir Víðir.

„Það verður ekkert eftirlit með þessu meira en bara öðru sem við erum að gera, við höfum verið að skoða íþróttaviðburði undanfarið og komið með ábendingar um það ef okkur hefur sýnst eitthvað vera ekki í lagi,“ segir Víðir.