Páll Hreins­son, for­seti EFTA-dóm­stóls­ins, segir að sóttkví sé klárlega frelsissvipting samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og ætti því að vera hægt að bera slík mál undir héraðsdóm.

Sóttvarnarlæknir hefur samkvæmt lögum heimild til að setja fólk í einangrun og sóttkví og samkvæmt lögum geta einstaklingar mótmælt þessu og borið það undir dómstóla ef þeir telja brotið gegn rétti sínum. Hins vegar á það bara við um einangrun en Páll telur að það ætti líka að eiga við um sóttkví. Nauðsynlegt er að breyta ákvæðum í sóttvarnarlögum til þess að samræma þetta að hans mati.

Fundað var um valdheimildir sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnarráðstafana á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.

Af opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun.

„Á ystu nöf“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður, sagðist hafa verulegar efasemdir um lagaheimildir fyrir því að ganga á rétt einstaklinga sem hvorki eru smitaðir né grunaðir um smit. Vísaði hann til upplýsingaöflunar við smitrakningu og nefndi flettingar í greiðslukortafærslum borgara sem dæmi.

„Við erum algjörlega á ystu nöf lagalega séð og kannski komin út fyrir öll mörk,“ sagði Brynjar á fundinum og ítrekaði að almennt þyrfti dómstólsúrskurði í slíkum aðstæðum, að kortleggja ferðir einstaklinga.

Páll sagðist ekki ætla að taka afstöðu en hann gæti rætt um lagaheimildir almennt. Hann sagði að vert væri að skoða upplýsingaöflun í smitrakningu og að Persónuvernd þurfi að úrskurða um hvort þarna sé farið lengra en efni standa til.

Hann sagði heimildir í lögum fyrir þessu en það fari eftir því hvernig farið er með upplýsingar. Persónuupplýsinga-reglugerðin opni á þennan aðgang.

Hversu langt má ganga?

Rætt var um hversu langt megi ganga í að skerða athafnafrelsi einstaklinga á tímum farsóttar. Almennt þyrfti dómstólaúrskurði til að skerða frelsi einstaklinga.

„Ég trúi ekki öðru en að þeir sem eru að hlusta á þetta og fara með sóttvarnaryfirvöld að þau geti kippt þessu í liðinn,“ sagði Páll.

Það er nauðsynlegt, að mati Páls, að ráðast í lagabreytingar til að skýra og styrkja óljósar heimildir yfirvalda. Allir aðgerðir ættu að vera í takt við meðalhófsreglu og stjórnarskrá.

Skýra ákvæði um sóttkví

Forsætisráðherra bað Pál um að taka saman álitsgerð með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindindaákvæðum.

Álitsgerðina má lesa hér en þar segir Páll athugunarvert að ekki sé að finna lögskýrgreiningar á helstu hugtökum sóttvarnarlaga. Hann kom með uppástungur um hvernig væri best að auka á skýrleika í framsetningu laganna.

Hann nefndi í álitsgerð sinni að í ljósi þess að sóttkví feli í sér frelsisskerðingu, sem falli undir 67. gr. stjórnarskrár og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði að breyta ákvæðum 15. gr. sóttvarnarlaga.