Sóttkví hefur verið aflétt af hjartadeild Landspítala en talið er að sjúklingur deildarinnar sem greindist með COVID-19 í gærkvöld hafi verið með gamalt smit.

Niðurstöður úr COVID-19 skimun allra sjúklinga og meirihluta starfsfólks hjartadeildar Landspítala lágu fyrir nú rétt fyrir klukkan eitt og reyndust allar neikvæðar.

Ljóst er að ekki er um útbreitt smit á deildinni að ræða. Af því tilefni hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að aflétta sóttkví af deildinni og starfsfólki hennar. Hjartadeild tekur nú við innlögnum á nýjan leik og starfsemin þar verður með eðlilegum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.

Tvisvar greinst neikvæður

Sjúklingur á hjartadeild Landspítalans reyndist smitaður af COVID-19 í gærkvöld við hefðbundna öryggisskimun hans fyrir útskrift af deildinni.

Sjúklingurinn sem greindist í gær hafði tvisvar fengið neikvætt sýni áður en hann fékk jákvæða niðurstöðu í gær. Slíkt getur gerst vegna ýmissa ástæðna; til dæmis breytinga á sýnatöku og þróun sjúkdómsins í viðkomandi. Í gær var talið að sjúklingurinn hafi smitast inniligjandi á hjartadeild.

Viðkomandi reyndist síðan hár í mótefnamælingu við blóðprufu, sem mælir með nákvæmri rannsókn grun um eldra smit vegna jákvæðrar niðurstöðu af skimun. Að öllum líkindum er því um eldra smit að ræða í viðkomandi sjúklingi, sem hann hefur fengið áður en hann lagðist inn á Landspítala í desember. Verið er að skoða málið nánar.

„Þetta var alvarlegur atburður í starfsemi Landspítala og viðbragðið í kjölfarið umfangsmikið, útbreitt og viðeigandi. Skjótt viðbragð Landspítala og viðamiklar öryggisráðstafanir til að vernda sjúklinga og starfsfólk hafa nú leitt af sér þessa niðurstöðu. Málið var leitt til lykta á innan við sólarhring af vel þjálfuðu starfsfólki og vísindamönnum Landspítala," segir í tilkynningu.

Um 200 skimanir af starfsfólki hafa verið framkvæmdar, flestar niðurstöður liggja fyrir, en niðurstöður úr öllum berast síðar í dag. Allir sjúklingar á deildinni voru skimaðir í gærkvöld.