Tæplega hundrað gististaðir hafa nú tilkynnt Ferðamálastofu að þeir geti tekið á móti gestum í sóttkví.

Frá og með miðvikudeginum verður öllum sem koma til landsins gert að fara í tvær sýnatökur og sæta fimm til sex daga sóttkví á milli.

Þurfa gististaðir að framfylgja fjölda skilyrða til að mega hýsa fólk á meðan beðið er eftir seinni sýnatöku.

Þurfa að tryggja að fólk fái mat

„Það sem þeir þurfa að hafa í huga númer eitt, tvö og þrjú er að þetta séu herbergi sem eru út af fyrir sig, hvort sem það er sér hæð, sér álma eða stakstæð hús,“ segir Elías Bjarni Gíslason, verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu.

Þá þurfi hvert herbergi að vera með eigin bað- og salernisaðstöðu en fjölskylda má deila aðstöðu í einingu með fleiri en eitt svefnherbergi.

„Síðan þarf gististaðurinn að vera tilbúinn að þjónusta gestina, færa þeim mat eða sjá til að það sé einhvers konar heimsending frá veitingastöðum eða verslunum.“

Einnig skuli gæta þess að handklæði, sápa og salernispappír sé til staðar og dugi í sex daga þar sem starfsfólki sé óheimilt að fara inn í herbergin á meðan sóttkví stendur.

Þá beri að hafa upplýsingar inn á herbergjum um sóttvarnir og þarf gististaðurinn að geta hjálpað gestum að finna hvar þeir geti farið í seinni skimunina. Er þetta ekki tæmandi listi.

Óvissa með eftirlit

Enn er nokkuð óljóst hvernig þessum skilyrðum verður framfylgt.

„Við höfum ekki hugsað okkur að taka út gististaðina til að sjá hvort þeir séu að sinna þessu. Eins og Víðir og Alma segja þá höfum við hingað til bara svolítið treyst fólki og það er sú leið sem ég held að sé vænlegust í þessu,“ segir Elías.

Þó sé ekki útilokað að almannavarnir spyrji ferðamenn um aðstæður þegar teknar verða stikkprufur símleiðis til að athuga hvort fólk sé á þeim stað sem það gaf upp.

Ferðalangar fluttir í sóttvarnarhús ef þeir greinast með COVID-19

Að sögn Elíasar hafa ferðalangar sem eru skikkaðir í sóttkví yfirleitt dvalið í sóttvarnarhúsi fram að þessu.

„Ef þetta eru ferðamenn og það hefur ekki í nein hús að venda þá hefur það farið í sóttvarnarhús og er þá á kostnað ríkisins. Það verður þannig áfram að ef einstaklingur greinist jákvæður þá verður hann mjög líklega fluttur í sóttvarnarhús og þá er það ekki lengur á kostnað ferðamannsins.“

Nú verði það hins vegar á ábyrgð ferðamanns að tryggja sér hentuga gistingu á meðan beðið er eftir seinni sýnatöku og ber að standa undir þeim kostnaði.

Ef fólk hefur bókað dvöl á gististað sem er ekki skráð hjá Ferðamálastofu verður því óheimilt að vera þar á meðan sóttkví stendur.

„Síðan er það líka á ábyrgð okkar sem gestgjafa að gististaður hafi samband við ferðamenn ef stjórnendur treysta sér ekki til að taka á móti fólki og kannski liðsinna því við að finna gistingu.“