Jón Hrói Finnsson, nýráðinn sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, er með 1,5 milljónir króna í laun samkvæmt ráðningarsamningi. Hann sótti um starf sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs en fær nú titilinn sveitarstjóri.

Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit sameinuðust í fyrra í hið nýja sveitarfélag Þingeyjarsveit. Eftir sameininguna voru gerðar samþykktir þess efnis að enginn sveitarstjóri yrði hjá hinu sameinaða sveitarfélagi. Nýr meirihluti sveitarstjórnar var andvígur þessu og vildi ráða sveitarstjóra. Breytingar á gildandi samþykktum voru samþykktar af meirihluta 22. júní og staðfesti innviðaráðuneytið breytingar mánuði síðar.

Auglýst var eftir sviðsstjóra stjórnsýslusvið mánuði áður en innviðaráðuneyti samþykkti breytingarnar. Meirihlutinn segir að verksmið sviðsstjóra væri það sama og ef auglýst hefði verið eftir sveitarstjóra. Segja þau að ráðning í framhaldi af umræddri auglýsingu væri þá í samræmi við samþykktirnar.

Töldu hæfasta umsækjandann ekki hafa orðið fyrir valinu

Fulltrúar K-lista óskuðu Jón Hróa til hamingju með starfið en lýstu yfir vonbrigðum með ráðningarferlið og töldu að hæfasti umsækjandinn hafi ekki orðið fyrir valinu.

„K-listi bókar vonbrigði við ráðningarferli starfs sem nú verður titlað sveitarstjóri. Mat fulltrúa listans er að allt frá því starf sviðsstjóra var auglýst, án umræðu, samráðs eða samþykktar sveitarstjórnar hafi verið ljóst hver ætti að hljóta starfið og því hafi tíma umsækjenda og þeirra sem tóku þátt í ráðningarferlinu verið sóað. Þá vekur athygli að enginn á E-lista tók þátt í ráðningarferlinu öllu,“ segir í bókun K-listans.

Jón Hrói starfaði samkvæmt ferilskrá sem stjórnsýsluráðgjafi árin 2019 til 2022, samhliða því vann hann við stundakennslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árið 2019. Hann hefur starfað sem sviðsstjóri búsetusviðs Akureyrarbæjar, sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs Akraneskaupstaðar og var sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps á árunum 2010 til 2014.

Jón Hrói er með embættispróf (Cand.sci.pol.) og BA próf í stjórnsýslufræðum frá Aarhus Universitet í Danmörku.