Andri Sigurðsson, skipuleggjandi og meðlimur Sósíalistaflokksins er ekki hrifinn af Kosningavitanum svokallaða. Hann segir kvarða vitans á alþjóðahyggju og þjóðhyggju hlutdrægan. Stjórnmálafræðingur og einn af hönnuðum vitans segir ásana ekki hafa verið valda fyrirfram, heldur með vísindalegri aðferð.
Andri ræðir Kosningavitann á Twitter. „Þessi Kosningaviti er auðvitað hlutdrægur og á forsendum frjálslyndu miðjunnar þar sem alþjóðahyggja er skilgreind á ákveðin hátt. Sósíalistar eru alþjóðasinnaðir en eru á móti því að leyfa stórfyrirtækjum að vaða yfir okkur á skítugum skónum. Workers of the world unite,“ skrifar Andri.
Hann segir það val að leggja svo mikla áherslu á alþjóðahyggju. „Það er pólitík Viðreisnar og Samfylkingarinnar. Sósíalistar myndi auðvitað vilja að þessi ás myndi snúast um lýðræði og valddreifingu.“
Svo er auðvitað snilld að gefa "alþjóðhyggju" svona mikið vægi með að vera með heilan ás fyrir það. Sósíalistar eru auðvitað alþjóðasinnaðir en bara ekki á sama hátt og Viðreisn og Píratar. Forsendurnar í þessu prófi eru allar út frá hinni frjálslyndu miðju.
— Andri XJ (@andri_sigurds) September 7, 2021
Andri segir aðspurður Sósíalistaflokkinn ekki eiga heima á kvarða Kosningavitans. „Ef maður skoðar spurningarnar sem eru í þessu prófi þá sér maður að þarna er lagt upp með ákveðnar forsendur, sem eru þessir tveir ásar og það er bara val þess sem býr til þetta próf að hafa þennan alþjóðahyggjuás,“ segir Andri.
„Mér var bent á það að þessi uppsetning hentar rosalega vel stjórnmálumhinnar frjálslyndu miðju, sem er til dæmis Viðreisn og Samfylkingin,“ segir Andri og bætir við að þetta útskýri hvers vegna Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn séu eins langt í burtu frá hvor öðrum á ásunum eins og raun ber vitni.
„Það er út af því að áherslan er öll á þessa alþjóðahyggju, sem eru einmitt stjórnmál Viðreisnar, sem leggur gríðarlega mikið upp úr því að fara í ESB og taka upp nýjan gjaldmiðil og allt það,“ segir hann. Yrði áherslan á lýðræðis eða valddreifingu myndi eitthvað allt annað koma út að sögn Andra.
„Ég er bara að benda á að svona próf eru á engan hátt hlutlaus eða gefa einhverja hlutlausa útkomu heldur er þetta í raun bara pólitískt og ákveðnar ákvarðanir og forsendur sem liggja þarna að baki.“
Það er val að leggja svona mikla áherslur á alþjóðahyggju. Það er pólitík Viðreisnar og Samfylkingarinnar. Sósíalistar myndi auðvitað vilja að þessi ás myndi snúast um lýðræði og valddreifingu.
— Andri XJ (@andri_sigurds) September 7, 2021
Ekki tekin ákvörðun fyrirfram um ásana
Kosningavitinn er gerður á vegum helpmevote.gr, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Landssambands ungmennafélaga, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og nokkurra íslenskra fræðimanna. Einn þeirra sem hefur komið að Kosningavitanum er Hafsteinn Einarsson, doktorsnemi í félagstölfræði við Manchesterháskóla en Fréttablaðið bar undir hann gagnrýni Sósíalista.
Hafsteinn bendir á að það hafi ekki verið ákveðið fyrirfram að alþjóðahyggja og þjóðhyggja yrðu meðal fjögurra ása á skýringarmynd Kosningavitans.
„Ásarnir eru búnir til með tölfræðilegri aðferð sem kallast þáttagreining. Það er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki tekin ákvörðun fyrirfram um hvaða ásar verða fyrir valinu og hvaða breytur tilheyra ásunum,“ segir Hafsteinn.
„Með þáttagreiningunni sjáum við að sumar breytur hafa mikla fylgni hver við aðra og eru því að mæla undirliggjandi þátt og þeir tveir þættir sem gögnin gefa til kynna að skipti mestu máli eru valdir.“
Hafsteinn segist skilja að framboð myndu vilja að spurningar sneru helst að þeirra eigin stefnumálum. „En það þarf að gæta jafnræðis til að Kosningavitinn virki fyrir alla, sér í lagi þá sem hafa litla reynslu af stjórnmálum.“
Áður en við byrjum þarf að nefna lykilatriðið: Kosningavitinn er ekki vél sem segir þér hvað þú átt að kjósa. Hann segir þér hvort þú sért sammála eða ósammála flokkunum á nokkrum málefnum sem þeir voru sjálfir ekki sammála um.
— Hafsteinn Einarsson (@hafsteinneinars) September 7, 2021
3.Tölfræðigreining er notuð til að velja úr þær 30 spurningar sem flokkarnir svöruðu með ólíkustum hætti og síðan eru sumar þeirra flokkaðar saman í „ásana“
— Hafsteinn Einarsson (@hafsteinneinars) September 7, 2021
Þetta er atriðið sem flest kosningapróf klikka á, þau dæla bara út spurningum án þess að hugsa um hvort þær séu hjálplegar eða ekki. Með því að henda út spurningum sem virka illa fáum við betra mat á hvað raunverulega skiptir máli í kosningabaráttunni.
— Hafsteinn Einarsson (@hafsteinneinars) September 7, 2021
Fleiri tíst Hafsteins þar sem hann útskýrir Kosningavitann má lesa með því að smella hér.