Sósíal­ista­flokkurinn stóð fyrir Sósíal­ista­þingi í Tjarnar­bíói í dag þar sem kosninga­stefnu­skrá flokksins var af­greidd undir kjör­orðinu „Stór­kost­legt sam­fé­lag“.

Í til­kynningu sem send var frá for­manni flokksins, Gunnar Smára Egils­syni, segir að stefnan byggi á „ein­stöku tæki­færi Ís­lendinga til að byggja hér upp rétt­látt, öruggt og öflugt sam­fé­lag byggt á jöfnuði og sam­kennd.“

Sósíal­istar segja tæki­færi liggja í því að Ís­lendingar séu fá­menn þjóð í stóru landi ríku af auð­lindum. Þeir segja einnig vera tæki­færi í því að auð­valdið geti ekki hótað að flytja auð sinn úr landi, þar sem auður á Ís­landi byggir á auð­lindum í eigu al­mennings. Þá segja þeir efna­hags­hrunið 2008 og kóróna­sam­dráttinn hafa af­hjúpað hvar aflið liggur til að byggja upp kröftugt sam­fé­lag; hjá ríkis­sjóði, Seðla­banka og al­manna­valdinu.

„Ef al­menningur nær ekki yfir­ráðum yfir ríkis­valdinu mun auð­valdið nota þetta afl til að styrkja enn frekar eigin stöðu, lækka á sér skatta, sækja sér styrki og sölsa undir sig enn meira af eignum og auð­lindum al­mennings.“

Að sögn sósíal­ista vilja þeir nota þetta afl til að byggja upp „stór­kost­legt sam­fé­lag byggt á kær­leika og sam­kennd.“ Þeir segja mikil­vægt að horfa til sögunnar til að skilja öflin sem virkja má til að breyta sam­fé­lögum.

„Hvaðan haldið þið að aflið til að lyfta upp efna­hags­kerfi Suður-Kóreu eða Japans hafi komið, Banda­ríkjanna eftir kreppu eða Evrópu eftir stríð, hvað lyfti Ís­landi frá því að vera fá­tækasta land Evrópu í að verða það ríkasta? Það var ein­beittur vilji til að byggja upp at­vinnu­líf, inn­viði og vel­ferðar­kerfi sem var sam­eigin­legt verk­efni alls sam­fé­lagsins, við­fang lýð­ræðis­vett­vangsins,“ segir í til­kynningu á vef­síðu flokksins.

Vilja endur­skipu­leggja skatt­kerfið

Komist Sósíal­istar til valda hyggjast þeir endur­skipu­leggja skatt­kerfið svo þau sem mest eiga borgi mest en þau sem minnst eiga borgi ekkert og endur­heimta auð­lindirnar úr höndum auð­hringa.

Þá vilja sósíal­istar leysa hús­næðis­vandann með því að byggja yfir þau sem búa við okur og ó­öryggi á hús­næðis­markaðinum, inn­leiða að nýju gjald­frjálsa grunn­þjónustu, lyfta fólki upp úr fá­tækt og styrkja alla inn­viði og grunn­kerfi.

Flokkurinn hyggst ráðast gegn spillingu og elítu­stjórn­málum og styrkja hags­muna­bar­áttu al­mennings gegn auð­valdinu.

„Í stuttu máli ætla þeir sér að vinda ofan af ný­frjáls­hyggjunni og öllum þeim skaða sem hún hefur valdið sam­fé­laginu svo hér verði hægt að byggja upp stór­kost­legt sam­fé­lag fyrir allt fólk.“