Sósíalistaflokkurinn stóð fyrir Sósíalistaþingi í Tjarnarbíói í dag þar sem kosningastefnuskrá flokksins var afgreidd undir kjörorðinu „Stórkostlegt samfélag“.
Í tilkynningu sem send var frá formanni flokksins, Gunnar Smára Egilssyni, segir að stefnan byggi á „einstöku tækifæri Íslendinga til að byggja hér upp réttlátt, öruggt og öflugt samfélag byggt á jöfnuði og samkennd.“
Sósíalistar segja tækifæri liggja í því að Íslendingar séu fámenn þjóð í stóru landi ríku af auðlindum. Þeir segja einnig vera tækifæri í því að auðvaldið geti ekki hótað að flytja auð sinn úr landi, þar sem auður á Íslandi byggir á auðlindum í eigu almennings. Þá segja þeir efnahagshrunið 2008 og kórónasamdráttinn hafa afhjúpað hvar aflið liggur til að byggja upp kröftugt samfélag; hjá ríkissjóði, Seðlabanka og almannavaldinu.
„Ef almenningur nær ekki yfirráðum yfir ríkisvaldinu mun auðvaldið nota þetta afl til að styrkja enn frekar eigin stöðu, lækka á sér skatta, sækja sér styrki og sölsa undir sig enn meira af eignum og auðlindum almennings.“
Að sögn sósíalista vilja þeir nota þetta afl til að byggja upp „stórkostlegt samfélag byggt á kærleika og samkennd.“ Þeir segja mikilvægt að horfa til sögunnar til að skilja öflin sem virkja má til að breyta samfélögum.
„Hvaðan haldið þið að aflið til að lyfta upp efnahagskerfi Suður-Kóreu eða Japans hafi komið, Bandaríkjanna eftir kreppu eða Evrópu eftir stríð, hvað lyfti Íslandi frá því að vera fátækasta land Evrópu í að verða það ríkasta? Það var einbeittur vilji til að byggja upp atvinnulíf, innviði og velferðarkerfi sem var sameiginlegt verkefni alls samfélagsins, viðfang lýðræðisvettvangsins,“ segir í tilkynningu á vefsíðu flokksins.
Vilja endurskipuleggja skattkerfið
Komist Sósíalistar til valda hyggjast þeir endurskipuleggja skattkerfið svo þau sem mest eiga borgi mest en þau sem minnst eiga borgi ekkert og endurheimta auðlindirnar úr höndum auðhringa.
Þá vilja sósíalistar leysa húsnæðisvandann með því að byggja yfir þau sem búa við okur og óöryggi á húsnæðismarkaðinum, innleiða að nýju gjaldfrjálsa grunnþjónustu, lyfta fólki upp úr fátækt og styrkja alla innviði og grunnkerfi.
Flokkurinn hyggst ráðast gegn spillingu og elítustjórnmálum og styrkja hagsmunabaráttu almennings gegn auðvaldinu.
„Í stuttu máli ætla þeir sér að vinda ofan af nýfrjálshyggjunni og öllum þeim skaða sem hún hefur valdið samfélaginu svo hér verði hægt að byggja upp stórkostlegt samfélag fyrir allt fólk.“