Fram­kvæmda­stjórn Sósíal­ista­flokksins óskaði eftir því að flokkurinn fengi að aug­lýsa ó­keypis hjá Ríkis­út­varpinu fyrir þing­kosningarnar í septem­ber. Þetta kemur fram í frétt hjá RÚV.

Flokkurinn segir að þar sem þing­flokkarnir fái háa styrki úr ríkis­sjóði á hverju ári þá sé hætt við að skila­boð nýrra gras­rótar­hreyfinga sem hafa ekki jafn mikið á milli handanna drukkni í aug­lýsingum þing­flokkanna.

Sósíal­istar hafa farið þess á leit við RÚV að þeir fái jafn miklar aug­lýsingar og þing­flokkarnir kaupi að meðal­tali endur­gjalds­laust, eða í það minnsta eins og sá sem minnst kaupir. Fram­kvæmda­stjórn Sósíal­ista­flokksins segir RÚV ekki tapa neitt á slíkum aug­lýsingum án endur­gjalds en það sé þó „mikil­vægt fyrir sam­fé­lagið að veita við­nám sjálf­töku stjórn­mála­flokkanna og til­raunum þeirra til að verja eigin völd á kostnað jafn­ræðis og lýð­ræðis“.

Í bréfi sem Sósíal­istar sendu RÚV gagn­rýna þeir flokkana á þingi fyrir að út­hluta sér fé úr ríkis­sjóði.

„Þessi á­kvörðun skaðar lýð­ræðið þar sem hætta er á að erindi nýrra gras­rótar­fram­boða al­mennings muni drukkna í aug­lýsingum þeirra flokka sem hafa skammtað sér þessa styrki. Styrkirnir eru því í raun ekki til að örva lýð­ræðið heldur til að verja völd og stöðu þeirra flokka sem fyrir eru,“ segir í bréfi fram­kvæmda­stjórnar Sósíal­ista­flokksins undir­rituðu af Gunnari Smára Egils­syni, for­manni.