Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins óskaði eftir því að flokkurinn fengi að auglýsa ókeypis hjá Ríkisútvarpinu fyrir þingkosningarnar í september. Þetta kemur fram í frétt hjá RÚV.
Flokkurinn segir að þar sem þingflokkarnir fái háa styrki úr ríkissjóði á hverju ári þá sé hætt við að skilaboð nýrra grasrótarhreyfinga sem hafa ekki jafn mikið á milli handanna drukkni í auglýsingum þingflokkanna.
Sósíalistar hafa farið þess á leit við RÚV að þeir fái jafn miklar auglýsingar og þingflokkarnir kaupi að meðaltali endurgjaldslaust, eða í það minnsta eins og sá sem minnst kaupir. Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins segir RÚV ekki tapa neitt á slíkum auglýsingum án endurgjalds en það sé þó „mikilvægt fyrir samfélagið að veita viðnám sjálftöku stjórnmálaflokkanna og tilraunum þeirra til að verja eigin völd á kostnað jafnræðis og lýðræðis“.
Í bréfi sem Sósíalistar sendu RÚV gagnrýna þeir flokkana á þingi fyrir að úthluta sér fé úr ríkissjóði.
„Þessi ákvörðun skaðar lýðræðið þar sem hætta er á að erindi nýrra grasrótarframboða almennings muni drukkna í auglýsingum þeirra flokka sem hafa skammtað sér þessa styrki. Styrkirnir eru því í raun ekki til að örva lýðræðið heldur til að verja völd og stöðu þeirra flokka sem fyrir eru,“ segir í bréfi framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins undirrituðu af Gunnari Smára Egilssyni, formanni.