Sósíalistaflokkur Íslands sendi frá sér ályktun í kvöld með tilliti til afhjúpunar á meintum glæpum Samherja í Namibíu.

„Það sem þér ofbýður er grimmd auðvaldsins. Krafa almennings hlýtur að vera: Auðvaldið burt! Það sem þér ofbýður er aumingjaskapur stjórnmálaelítunnar. Krafa almennings hlýtur að vera: Elítuna burt! Það sem þér ofbýður er algjört valdaleysi alþýðunnar í samfélaginu: Krafa almennings hlýtur að vera: Valdið til fólksins!“ segir í ávarpi Sósíalistaflokksins. Allar stjórnir Sósíalistaflokksins samþykktu ályktunina.

„Lausnin gegn arðráni auðvaldsins, svikum elítunnar gagnvart alþýðunni og valdaleysi almennings kallast sósíalismi. Gott samfélag verður aðeins byggt upp með lýðræði sem hvílir á jöfnuði, mannhelgi og samkennd. Auðvaldið rífur niður samfélagið. Sósíalisminn byggir það upp,“ segir að lokum.

Þingmenn Alþingis ræddu um spillingu á þingfundi fyrir helgi þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti að mál Samherja væri komið á borð héraðssaksóknara. Málið verður rannsakað ofan í kjölinn að sögn Katrínar en bæði hún og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa sagt það sjálfsagt að embætti Héraðssaksóknara, skattrannsóknastjóra og skattstjóra fái frekari fjárveitingar verði það nauðsynlegt.