Sósíalistaflokkurinn fengi fimm menn kjörna á þing ef gengið yrði til alþingiskosninga í dag, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR sem birtar eru í Morgunblaðinu í dag. Könnunin var gerð dagana 18. til 24. ágúst og tóku 772 einstaklingar afstöðu.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 23,9% fylgi. Þar á eftir kemur Framsóknarflokkurinn með 12,5%, Vinstrihreyfingin – grænt framboð með 10,9%, Píratar með 10,6%, Samfylkingin með 10,5% og Viðreisn með 10,4%. Sósíalistaflokkurinn sækir í sig veðrið og mælist fylgi hans nú 8,7%. Miðflokkurinn er með 6,2% fylgi og Flokkur fólksins 5,1%.
Í umfjöllun Morgunblaðsins um niðurstöður könnunarinnar er bent á að báðir ráðherrar Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Alfreðsdóttir, séu inni en Lilja þó naumlega. Þá myndi Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, ekki komast inn á þing en Tómas A. Tómasson, oft kenndur við Búlluna, kæmist inn í jöfnunarsæti.
Ef marka má niðurstöðurnar er samanlagt fylgi stjórnarflokkanna 47,3% sem myndi skila þeim 32 þingsætum og naumum meirihluta.