Notkun einnota kaffihylkja hefur verið gagnrýnd og sögð slæm fyrir umhverfið. Þóra Margrét Þorgeirsdóttir er stjórnandi Facebook hópsins Minna sorp: lærdómsferli fjölskyldu. Þar skrifar hún í dag hugleiðingu um einnota kaffihylki í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins nú um helgina, þar sem fram kom að rúmlega 9 milljónir einnota Nespresso kaffihylkja seljist árlega á Íslandi, en það samsvarar 25.000 kaffihylkjum á dag.

Þóra segir að þrátt fyrir að hægt sé að fara umhverfisvænni leiðir í notkun kaffihylkja og hylkjakaffivéla sé aðeins ein leið til þess að koma í veg fyrir þá sóun sem á sér stað við notkun þeirra, að sleppa þeim. Hún segir endurvinnslu ekki vera lausnina á sorpvanda heimsins, heldur einungis eina leið í meðferð sorpúrgangs.

Nespresso kveðst leggja mikið upp úr því að framleiðsla þeirra sé eins umhverfisvæn og sjálfbær og völ er á og býður viðskiptavinum sínum að skila notuðum hylkjum í verslunun sína í Kringlunni og Smáralind þar sem þau eru send til endurvinnslu.

Þóra segir hins vegar að þrátt fyrir að hylkin séu endurunnin eða að notuð séu umhverfisvæn hylki sé mikil umhverfissóun fólgin í framleiðslu þeirra og flutningi á milli landa. Einnig er er mikil sóun fólgin í þeim hráefnum sem notuð eru í hylkin.

Þóra kemur með hugmyndir af því hvernig hægt sé að njóta kaffis með sem minnstum áhrifum á umhverfið. Hún nefnir notkun fjölnota kaffihylkja, umbúðalaust kaffi og kaffi í hefðbundnum kaffipokum. Þóra slær einnig á létta strengi og segir best fyrir umhverfið að hætta að drekka kaffi og bætir við að öllum þeim ráðum sem hún gefi fylgi sóun af einhverju tagi en að hún sé aldrei jafnmikil og af notkun einnota hylkja.

„Kaffi er auðvitað ekki nauðsynjarvara, hún er munaðarvara sem við getum í raun alveg lifað án. Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna þarf 140 lítra af vatni til að rækta, framleiða og flytja kaffibaunir í kaffibollann minn, 1 bolla. Svo bætist auðvitað við önnur neikvæð umhverfisáhrif þessa sama ferlis. Þannig að kaffineysla hefur per se hefur mjög neikvæð áhrif á umhverfið og langbest að sleppa henni alveg“ segir Þóra og bætir við að fyrst og fremst byggist neyslumynstur okkar á þörfum okkar löngunum og þægindum sem geri það að verkum að umhverfismálin eru aftarlega á merinni. Þetta mynstur segir Þóra að endurspeglist vel í notkun einnota kaffihylkja.