Sorp­hirða í Reykja­vík hefur á síðustu misserum ekki verið eftir því sem sorp­hirðu­daga­tal segir til um. Guð­mundur B. Frið­riks­son, hjá um­hverfis- og skipu­lags­sviði Reykja­víkur­borgar, segir það vera vegna bölvan­legs árs.

„Við erum eftir á í hirðunni, að venju ættum við að hirða á þriggja vikna fresti, en við erum kannski með tuttugu og þrjá til tuttugu og fjóra daga á milli núna,“ segir Guð­mundur. Hirða á bláu og grænu tunnunum hafi sér­stak­lega dregist.

Unnið sex daga vikunnar

„Við erum búin að vinna nær alla laugar­daga á þessu ári, bara til þess að vinna upp tafir,“ segir Guð­mundur

Í upp­hafi árs hafi stór hluti mann­skapsins fengið co­vid og strax í kjöl­farið hafi tekið erfiður og snjó­þungur kafli við og þá hafi sorp­hirðan dregist aftur.

„Svo hafa tekið við bilanir á hirðu­bílum og svo er það þannig að þegar túr­isminn fer allur af stað þá fer að vanta bíl­stjóra á svona stórum bílum,“ segir Guð­mundur en hann segir um þrjá­tíu prósent af sorp­hirðu­flotanum sé bilaður.

„Það eru til dæmis tveir bílar sem eru búnir að vera á verk­stæði í fimm vikur vegna þess að það fást ekki vara­hlutir,“ segir hann og bætir við að bílarnir séu orðnir sjö og átta ára og því sé um eðli­legt slit og við­hald um að ræða.

„Það hefur eitt rekið annað þannig að við höfum dottið aftur á með bláu og grænu tunnuna,“ segir Guð­mundur.

Ein­blínt hefur verið á að tæma gráu og brúnu tunnurnar. „Það er sá úr­gangur sem má kannski ekki geyma allt of lengi og við erum ekki með grenndar­stöðvar fyrir þann úr­gang,“ segir hann.

Búast við nýjum bílum á næsta ári

Guð­mundur segir Reykja­víkur­borg vera búin að bjóða út kaup á nýjum bílum og skrifa undir samning um nýja bíla. Þeir komi þó ekki fyrr en í apríl eða maí á næsta ári.

„Þessir bílar sem við erum að taka, eru metan bílar, og höfum verið á metan bílum í lengri tíma þar sem við fram­leiðum metan úr sorpinu okkar, að þeir eru í for­gangi í fram­leiðslu og það þýðir að við fáum nýja bíla í maí á næsta ári,“ segir hann.

„Við erum jafn­framt að reyna að út­vega okkur bíl í skemmri tíma þar til nýir bílar koma,“ segir Guð­mundur en bætir við að þau sem sjá um sorp­hirðu í sveitar­fé­lögum í ná­grenni við Reykja­vík hafi lent í svipuðum vand­ræðum og því ekki hægt að fá lánaðan bíl hjá þeim.

Lík­legt að fólk flokki minna þegar tunnur fyllast

Guð­mundur segir ekkert ó­lík­legt að ef pappírs og grænu tunnurnar fyllast, fari fólk að troða ruslinu frekar í gráu tunnurnar.

Hann hvetur þá fólk til þess að fara með sorpið í grenndar­stöðvar. „Við erum svo sem ekkert það mikið eftir á, það er kannski á ein­hverjum stöðum þar sem tunnurnar eru ekki nógu margar til þess að ráða við þetta. Þá er hægt að nýta sér grenndar­stöðvarnar,“ segir hann.