Sorphirða í Reykjavík er talsvert á eftir áætlun, samkvæmt upplýsingum á vef borgarinnar. Tæming á bláum og grænum tunnum hefur legið niðri síðustu vikur en á miðvikudag var byrjað að tæma þær á ný. Búast má við að það taki borgina um þrjár vikur að komast aftur á áætlun.

Í skriflegu svari borgarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að ástæðan sé margþætt. Upphaflega hafi veikindi starfsmanna haft mest áhrif, þar með talið vegna Covid. Í kjölfarið hafi slæmt veður og slæm færð haft áhrif.

„Einnig hafa sorpbílar verið að bila vegna álags. Viðgerðir hafa síðan tafist vegna veikinda starfsmanna á verkstæðum,“ segir í svarinu.

Þar segir einnig að starfsfólki hafi verið fjölgað um fimmtán prósent frá því í janúar ásamt því að starfsfólk hafi unnið alla laugardaga fyrir utan tvo, frá því fyrir jól. Þegar spurt er um ráðstafanir vegna slæmrar veðurspár segir að þær ráðstafanir sem gripið sé til séu lengri vinnudagar ásamt vinnu um helgar og fjölgun á starfsfólki.

Í Facebook-hópunum Íbúar í Miðborg og Vesturbærinn hefur mikið verið rætt um seinkun á sorphirðu og tala íbúar um að bláar og grænar tunnur hafi ekki verið tæmdar vikum saman, samkvæmt upplýsingum frá borginni er tæming grárra tunna, almenns rusls, á áætlun.

Íbúar velta fyrir sér hvort greiða þurfi fyrir þjónustuna þegar hún er ekki veitt eða einungis veitt löngu á eftir áætlun. Verð fyrir bláa tunnu, sem er í minna en fimmtán metra fjarlægð frá sorphirðubíl er 10.200 krónur á ári. Verð fyrir græna tunnu er 10.600 krónur.

Í svari borgarinnar segir að hirðugjöldin séu reiknuð fyrir árið og ekki breytt nema verulegar breytingar verði á áætlun. „Það að ein hirða falli niður af óviðráðanlegum orsökum kallar ekki á endurgreiðslu hirðugjalda,“ segir í svarinu.

„Að sama skapi verða hirðugjöld ekki hækkuð á þessu ári, þrátt fyrir aukinn kostnað vegna yfirvinnu og aukins mannskaps,“ segir þar einnig.

Á vef borgarinnar er biðlað til íbúa borgarinnar um að moka snjó frá sorpílátum og gönguleiðum og hálkuverja þær. „Margir hverjir hafa gert það og við þökkum þeim fyrir það. Hins vegar er talsvert af stöðum þar sem starfsfólk hefur hreinlega ekki komist að tunnunum til að losa þær,“ segir í svari borgarinnar. „Einnig er bílum stundum illa lagt svo sorphirðubílar komast ekki að og líka eru hurðir að sorpgeymslum frosnar fastar og fleira.“