Sorpa mun rukka viðskiptavini 500 krónur fyrir að koma með rusl í svörtum ruslapokum.

Þetta segir Guðmundur Tryggvia Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva hjá Sorpu, við Morgunblaðið í dag. Viðskiptavinum er bent á að nota glæra poka í staðinn sem má finna í öllum helstu verslunum landsins.

Líkt og kemur fram í tilkynningu Sorpu var tekin ákvörðun um að kveðja svarta ruslapokann þann 1. júlí til að stuðla að meiri endurvinnslu og styðja við hringrásarhagkerfið.

„Staðreyndin er því miður sú að meira en helmingurinn af öllu því sem viðskiptavinir okkar skila í gáminn fyrir blandaðan úrgang á sér endurvinnslufarvegi. Efnið sem fer í gáminn fer hins vegar beint í urðun. Glæru pokunum er ætlað að auðvelda starfsfólki endurvinnslustöðvanna að hjálpa viðskiptavinum okkar að skila endurvinnsluefnunum í réttan farveg,“ sagði Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

Svart plast er ekki endurnýtanlegt.
Fréttablaðið/Getty images

Hvers vegna svartir ruslapokar?

Svart plast er ekki endurnýtanlegt og flestar vélar sem flokka rusl þekkja ekki efnið í svörtu plasti.

Líkt og kemur fram í grein á vef World Economic Forum, er til margar tegundir af plasti sem ekki er hægt að endurnýta. Svart plast er sérstaklega leiðinlegt og það er langoftast urðað, þ.e. grafið niður í jörðina þar sem það mun liggja óbreytt í 450 ár áður en það byrjar að brotna niður.

Ásta Sig­ríður Fjeld­sted, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, tók einnig ákvörðun um að hætta sölu svartra ruslapoka í öllum verslunum Krónunnar.

Til­gangur breytinganna er til að stuðla að aukinni endur­vinnslu.