Endurskoða á rekstur nytjamarkaðarins Góða hirðisins í Fellsmúla. Ástæðan er helst samfélagsmiðlar og aðrir rafrænir miðlar sem sífellt njóta meiri vinsælda við sölu á notuðum vörum. 

Í maí opnaði Sorpa efnismiðlun á Sæviðarhöfða sem var ætlað að létta undir rekstri Góða hirðisins. Þar eru til sölu notuð byggingarefni og ýmsar vörur til framkvæmda og listsköpunar. Með því að selja vörurnar þar þarf ekki að flytja vörurnar í verslunina og til baka í förgun og flokkun seljist þær ekki sem sparar Sorpu mikinn rekstrarkostnað.

„Við opnuðum Efnismiðlun Góða hirðisins í maí til að létta á rekstri Góða hirðisins. Sem dæmi þá voru seld 38 hjól þar í júlí sem annars hefðu farið niður í Góða hirði. Fólk vill endurnota en í góðæri fer fólk og skiptir út. Góði hirðirinn er á yfirsnúningi þannig Efnismiðlunin hefur aðeins bætt ástandið,“ segir Bjarni Gnýr Hjarðar yfirverkfræðingur þróunar- og tæknideildar og urðunarstaðar Sorpu.

Sjá einnig: Notaðar byggingar­vörur og ýmist til list­sköpunar

Bjarni segir að einnig sé verið að endurskoða vöruúrval verslunarinnar og virði þeirra. 

„Við erum líka að skoða hvort sumir hlutir sem í verslunina fara, eigi kannski ekki að fara þangað og við erum búin að reikna virðisflokka og miðum nú við þá hvað ætti ekki að fara þangað. Þetta er nýr raunveruleiki sem við erum að glíma við meðal annars út af rafrænum deilitorgum og miðlum.“.

Í ársskýrslu Sorpu fyrir árið 2017 kemur fram að leita þurfi leiða til að draga úr miklum kostnaði verslunarinnar. Það verður gert meðal annars með því að leggja aukna vinnu í að greina vöru sem eru helst not fyrir og hámarka þannig hlutfall nothæfrar vöru til verslunarinnar.

Segir í skýrslunni að á seinni hluta síðasta árs hafi Facebook-síða verslunarinnar nýst vel til að vekja athygli á versluninni sjálfri, auka tilboða og tilteknar vörur sem voru að berast þeim í miklu magni.

Ætla að þróa starfsemina

Aðspurður hvort það standi til að loka búðinni segir Bjarni að þau muni reyna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir það, en það sé þó alltaf möguleiki.

„Við erum ekki að fara að loka Góða hirðinum. Við ætlum að þróa starfsemina. Efnismiðlunin er gott dæmi um slíka þróun. Það er mögulegt en við munum gera margt annað áður en það gerist. Við teljum endurnot eðlileg og næstbesta kostinn á eftir því að draga úr magni úrgangs. Við höfum haldið því fram í þrjátíu ár. Við förum ekkert að skipta um skoðun núna,“ segir Bjarni að lokum.

Rekstrarniðurstaða neikvæð árið 2017

Rekstrarniðurstaða Góða hirðisins var neikvæð á árinu 2017. Segir í ársskýrslu Sorpu að verslunin hafi í fyrra staðið frammi fyrir óþekktum áskorunum vegna mikils framboðs vöru í misjöfnum gæðum sem barst í nytjagáma á endurvinnslustöðvum víða á höfuðborgarsvæðinu. 

Í desember var greint frá því í Fréttablaðinu að vikulega bærust Góða hirðinum 25 gámar fullir af nytjahlutum. Af hverjum fimm, sem bárust daglega, þurfti að senda tvo til baka í förgun eða endurvinnslu.

Á sama tíma var eftirspurn eftir notaðri vöru minni og viðskiptavinir kröfuharðari um betri vörur á lægra verði. Segir í skýrslunni að það sé ein birtingarmynd góðæris sem margt í ársskýrslunni bendir til að standi nú sem hæst.

Þannig var mikið af vörum sem ekki var verulegur markaður fyrir sem olli miklum aukakostnaði fyrir reksturinn, það er flytja þurfti vörurnar fram og til baka frá verslun og aftur í flokkun eða förgun.

Byrjað var á því að hafa starfsfólk frá Góða hirðinum á endurvinnslustöðvunum um helgar til að flokka beint það sem fólk setti í gámana til að flokka frá frá vörur sem ekki þykja söluvænlegar. Á einum tímapunkti þurfti að hætta að taka við vörum vegna plássleysis í búðinni.

Ársskýrslu Sorpu fyrir árið 2017 er hægt að kynna sér nánar hér og sérstakan flokkunarvef.