For­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands og fram­kvæmda­stjóri Geð­hjálpar for­dæma skrif Páls Vil­hjálms­sonar bloggara. Páll er ekki síst kunnur fyrir það hve oft er vitnað til hans í rit­stjórnar­greinum í Morgun­blaðinu.

Páll ritaði blogg­pistil eftir að Helgi Seljan frétta­maður opnaði sig í Vikunni hjá Gísla Marteini og sagðist hafa þurft að leita sér geð­rænnar að­stoðar eftir um­sátrið sem hann varð fyrir í kjöl­far af­hjúpunar Kveiks um Sam­herja­skjölin. Meðal þess sem Páll skrifaði var: „Sá sem leggst inn á geð­deild er kominn í slíkar ó­göngur að að­eins duga stór­tæk inn­grip læknis­vísinda til að færa geð­heilsuna í samt lag.“ Þá skrifar Páll að það „sé í meira lagi undar­legt að geð­veikur maður fari með víð­tækt dag­skrár­vald á ríkis­reknum fjöl­miðli, RÚV“.

Takmarkaður skilningur á mannlegu eðli

Grímur Atla­son fram­kvæmda­stjóri Geð­hjálpar, segir sam­tökin að jafnaði ekki eltast við blogg eða Face­book-færslur ein­stak­linga. En þar sem Páll sé talinn trú­verðugur að minnsta kosti á einni rit­stjórnar­skrif­stofu sé full á­stæða til að gera at­huga­semdir við mál­flutninginn. Í gegnum lífið þurfi flestir að leita að­stoðar vegna ytra á­reitis sem liti suma kafla lífs okkar. Það geti verið mjög vara­samt að leita sér ekki að­stoðar. „Ég var með frunsu í mánuð en ég er samt ekki kallaður Grímur frunsa það sem eftir er,“ segir hann og vísar til var­huga­verðra stimplana.

Grímur segir að Helgi sýni eftirsóknarvert hugrekki. „Ef ein­hver reynir að sverta hans per­sónu vegna þessa hug­rekkis þá er það mjög al­var­legt.“
Mynd/Ernir Eyjólfsson

Grímur segir skrif Páls lýsa mjög tak­mörkuðum skilningi á mann­legu eðli. Þau séu ó­trú­lega gamal­dags nálgun á geð­ræðunum á­skorunum. Sam­fé­lagið sé komið miklu lengra í átt að víð­sýni og um­burðar­lyndi en skrif Páls séu til marks um.

Hann segir Geð­hjálp gagn­rýna fjöl­miðla þegar þeir noti gamal­dags orð og falli í gryfju þekkingar­leysis og for­dóma. „Við viljum ekki gefa svona orð­ræðu of mikið vægi en hér er vegið harka­lega að frið­helgi Helga. Ef utan­að­komandi að­stæður hafa verið eins og Helgi lýsir þeim þá er ekki bara skiljan­legt að hann þurfi að­stoð heldur sýnir það eftir­sóknar­vert hug­rekki sem er okkur öllum fyrir­mynd. Ef ein­hver reynir að sverta hans per­sónu vegna þessa hug­rekkis þá er það mjög al­var­legt.“

Nýtir sér neyð og veikindi

Sig­ríður Dögg Auðuns­dóttir, for­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands, segir að sam­fé­lagið geti ekki látið það á­tölu­laust þegar frétta­maður þurfi að verjast eins al­var­legum á­rásum og raun bar vitni af hálfu skæru­liða­deildar Sam­herja. Páll sé ekki hluti hennar en hún velti fyrir sér um­ræðunni ef Helgi hefði líkam­lega þurft að sæta á­rásum og ör­kumlun.

„Við erum að horfa á mjög al­var­legar á­rásir á blaða­menn víða um heim. Í Hollandi var svo dæmi sé nefnt blaða­maður myrtur ekki alls fyrir löngu. Hér hefur líka átt sér stað mjög al­var­leg árás á frétta­mann sem við sem sam­fé­lag þurfum að stoppa.“

For­maður Blaða­manna­fé­lagsins segist ekki vilja eyða of mörgum orðum í það „lítil­menni“ sem skrifi blogg­færslur sem lýsi hans eigin for­dómum. En það sé mjög sorg­legt að á­rásunum hafi ekki linnt síðast­liðið vor þegar vinnu­brögð Sam­herja voru af­hjúpuð heldur standi þær enn yfir með því að þessi bloggari telji þörf á að halda á­rásunum á­fram. Þannig nýti hann sér neyð og veikindi í því skyni að ná enn einu högginu á Helga.

„Það er nauð­syn­legt að minna á að á öllum þessum tíma síðan málið hófst hefur ekki verið gerð ein einasta efnis­leg at­huga­semd við fréttir Helga og Kveiks um Sam­herja,“ segir Sig­ríður Dögg.