Leiðsögumaður í Facebook - hópnum Bakland ferðaþjónustunnar gagnrýnir þá sem misnota fría hressingu sem N1 á Hvolsvelli býður leiðsögumönnum og bílstjórum við störf sem koma við á stöðinni á ferðum sínum.

Troði í sig fríum pönnukökum

Í færslunni segir: „Sorgleg misnotkun á gestrisni þegar menn taka með sér haug af pönnsum í nesti fyrir sig og vinnufélaga. Megi tröllin taka þetta til sín.“ Fjölmargir í hópnum taka undir ummælin og segjast hafa orðið varir við slíka háttsemi. Segir einn: „Horfði á ónefndan bílstjóra troða í sig 25 pönnukökum.“

Jenný Björgvinsdóttir, stöðvastjóri á Hlíðarenda tekur undir þetta. „Þetta er bara staðreyndin. Við bjóðum leiðsögumönnum og bílstjórum uppá kaffi, pönnukökur og súpu.

Það er misjafn sauður í mörgu fé, sem þarf að skemma fyrir þeim sem vilja njóta og eru þakklátir,“ segir Jenný. Talsvert sé um að fólk nýti sér fría hressingu á stöðinni þótt það sé jafnvel ekki í starfsgreininni eða þeir sem eiga rétt á hressingu fyrir sig sjálfa hamstri mat fyrir vini sína eða viðskiptavini.

Vilja taka á móti fólki með kærleik

Hún bætir þó við: „Viðmótið hjá okkur er það að allir eru ávallt velkomnir og endilega stoppiði og heilsið upp á okkur starfsfólkið því við tökum á móti ykkur með kærleik. Það er það sem við viljum.“

Jenný segir að ef einhverjir nýti sér gestrisnina í of miklum mæli fari þetta úr böndunum. Þá verði rekstrarkostnaður of mikill og þá þurfi að draga úr. „Njóttu gestrisninnar af heiðarleika og kærleika,“ segir Jenný og hvetur fólk til að sýna meiri kærleika og býður alla velkomna á N1 á Hlíðarenda.

„Við bökum pönnukökur á morgnana úr tíu lítrum af deigi sem er sérkenni N1 á Hlíðarenda. Ég er mjög stolt af þessari stöð,“ segir Jenný sem þykir afar vænt um þá sem koma við og þiggja hressingu og heilsa upp á starfsfólkið.

Mynd/Skjáskot