Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, segist bera fulla á­byrgð á að­gerðum stjórn­valda til þess að bregðast við CO­VID-19 en hann segir yfir­völd hafa gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að ná stjórn á far­aldrinum.

Alls hafa nú fleiri en hundrað þúsund manns látist þar í landi eftir að hafa smitast, tæplega ellefu mánuðum eftir að fyrsta andlátið var staðfest í Bretlandi.

„Ég er inni­lega miður mín yfir öllum lífunum sem glötuðust,“ sagði John­son á blaða­manna­fundi um málið í kvöld. Hann bætti við að það væri „erfitt að reikna út“ þá sorg sem tölurnar fela í sér og sendi sam­úðar­kveðjur til allra þeirra sem höfðu misst ást­vini vegna CO­VID-19.

Þá sagði land­læknir Eng­lands, Chris Witty, að þetta væri „mjög sorg­legur dagur“ fyrir Breta og spáði því að dagleg andlát myndu líklegast verða jafn mörg næstu vikur.

Staðan skýrist á næstu dögum og vikum

Bretar hafa komið virki­lega illa út úr far­aldrinum en alls hafa nú rúm­lega 3,7 milljón til­felli smits verið stað­fest þar í landi. Þrátt fyrir að bólu­setningar hafi hafist í desember eru enn mjög margir að greinast þar sem nýtt af­brigði veirunnar hefur verið sér­stak­lega skætt.

Út­göngu­bann hefur verið í gildi frá því í byrjun janúar, þar sem fólk þarf að vera heima hjá sér og má að­eins fara út í nauð­syn­legum erinda­gjörðum, og var það í þriðja sinn sem slíkt út­göngu­bann var sett á.

John­son greindi frá því á blaða­manna­fundinum að það myndi skýrast á næstu dögum og vikum hvernig að­gerðum stjórn­valda verður háttað.

Fleiri en 100 milljón smit á heimsvísu

Dagurinn í dag var ekki að­eins myrkur fyrir Breta en í dag fóru stað­fest til­felli CO­VID-19 smits yfir 100 milljónir, rúm­lega ári eftir að veirunnar var fyrst vart í Kína.

Að­eins fimm lönd í heiminum hafa nú skráð fleiri en 100 þúsund dauðs­föll vegna CO­VID-19 en auk Bret­lands eru þau lönd Banda­ríkin, Brasilía, Ind­land og Mexíkó. Þau lönd eru jafn­framt með flest stað­fest til­felli á heims­vísu.

Flest lönd heims vonast nú til að hægt verði að bólu­setja sem flesta gegn CO­VID-19 á þessu ári en ný af­brigði veirunnar valda miklum ótta víða.