Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden segir að Hæsti­réttur landsins hafi gert mis­tök og tekið stjórnar­skráar­varinn rétt burt frá Banda­ríkja­mönnum.

Hæsti­réttur Banda­­ríkjanna sneri í dag við dóma­­for­­dæmi Roe v Wade frá 1973 og endaði þar með tæp­­lega fimm­tíu ára stjórnar­­skrár­bundnum rétti Banda­­ríkja­manna til þungunar­rofs. Búist er við því að um helmingur fylkja í Banda­­ríkjunum muni banna þungunar­rof að hluta eða öllu leyti í kjöl­far á­­lyktunarinnar.

Í á­varpinu frá for­setanum sagði hann að niður­staða Hæsta­réttar stefni lífi og heilsu kvenna í hættu og að af­nám réttar kvenna til þungunar­rofs væri af­leiðing af öfga­fullri hug­mynda­fræði, sem margir kenna fyrrum Banda­ríkja­for­seta Donald Trump um.

Biden sagði í á­varpi sínu að hann muni gera allt í sínu valdi til þess að gera þungunar­rof að­gengi­legt og öruggt. Hann varaði ríkin við að hindra að­gengi fólks til að slíkri heil­brigðis­þjónustu.

„Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að berjast gegn þessari ó­amerísku árás.“

Þá hvatti hann einnig kjós­endur til þess að nota rödd sína og kjósa þá fram­bjóð­endur sem vilja verja rétt kvenna til þungunar­rofs.

Fréttin verður uppfærð.