Fyrsti bíllinn var Vision-S sem var á pari við Tesla Model S en nýi bíllinn er stór, sjö sæta jepplingur. Að sögn Sony var fyrri bíllinn aðeins prófunartæki fyrir 5G-tækni Sony en bíllinn var smíðaður af Magna Steyr í Austurríki sem meðal annars smíðar Jagúar I-Pace.

Eins og búast má við af sjónvarpsframleiðanda eru snertiskjáir í bílnum hvert sem litið er.

Bíllinn er 4.850 mm langur og er á sama undirvagni og Vision-S. Hann er búinn tveimur 200 kW rafmótorum sem gefur honum fjórhjóladrif og 536 hestöfl í götuna. Búast má við hröðun um fimm sekúndur í hundraðið. Að innan er snertiskjár sem nær yfir alla breidd bílsins í mælaborðinu, auk tveggja skjáa á höfuðpúðum framsæta fyrir aftursætisfarþegana. Í yfirlýsingu frá Sony þykir margt benda til þess að Sony ætli sér stærri hluti á bílamarkaði því að þar segir meðal annars „að til að flýta fyrir þróun farartækja ætlar Sony að stofna sér fyrirtæki sem kallast mun Sony Mobility Inc. sem fer af stokkunum vorið 2022, með áherslu á að koma inn á rafbílamarkaðinn.“