Donald Trump Jr. greindist með Covid-19 í byrjun vikunnar og hefur verið í einangrun í veiðihúsi sínu frá því að niðurstöðurnar lágu fyrir. BBC greinir frá.

Don Jr. er annað barn forsetans til að greinast með sjúkdóminn. Barron Trump, sem er 14 ára gamall fékk Covid-19 í síðasta mánuði en var fljótur að jafna sig. Forsetinn dvaldi sjálfur í þrjár nætur á sjúkrahúsi í byrjun október eftir að hafa smitast. Forsetafrúin Melania Trump smitaðist einnig.

Don Jr. tók virkan þátt í forsetaframboði föður síns sem lauk fyrir um tveimur vikum með sigri fulltrúa demókrata, Joe Biden. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að gera lítið úr faraldrinum í Bandaríkjunum rétt eins og faðir hans. Í viðtali við Fox News í síðustu viku hélt hann því fram að fjölmiðlar einbeittu sér aðeins að fjölda tilfella en horfðu fram hjá dánartíðni.

„Af hverju er ekki talað meira um dauðsföll af völdum Covid-19? Örugglega útaf því að þau eru nánast engin. Við höfum náð stjórn á þessari veiru og vitum hvernig hún virkar", sagði Don Jr.

Alls hafa 11,8 milljónir Bandaríkjamanna smitast af Covid-19 og fleiri en 253 þúsund hafa látið lífið, en hvergi hafa fleiri látist vegna sjúkdómsins. Í gær greindust 192 þúsund manns með veiruna í Bandaríkjunum.