Alex Mogensen, sonur Flemming Mogensen sem er ákærður fyrir að hafa myrt Freyju Egilsdóttur í janúar síðastliðnum, segir að faðir hans hafi verið reiður maður. Morðið á Freyju hefur vakið mikinn óhug í Danmörku en það var einstaklega hrottalegt. Flemming hefur játað að hafa myrt hana.

Réttarhöldin yfir Flemming hefjast á morgun, TV2 Østjylland hefur sýnt heimildarmynd þar sem rætt er við Alex um föður sinn sem fjallað er um á vef DV.

Flemming myrti móður Alex árið 1995 og er talið að hann hafi einnig myrt Freyju, stjúpmóður Alex. Alex segir að Flemming hafi verið skapmikill og ekki hafi þurft mikið til að hann brjálaðist. Þá hafi Flemming glímt við sjálfsvígshugsanir og sektarkennd vegna morðsins á móður Alex.

Alex flutti til föður síns þegar hann var 10 ára, þá var Flemming búinn af afplána fangelsisdóm fyrir morðið á móður hans. Þegar Alex var beðinn um að lýsa föður sínum sagði hann einfaldlega: „Fúll og reiður.“

Alex segir að Flemming og Freyja hafi rifist mikið. „Auðvitað voru stundir sem voru góðar en þær voru ekki svo margar,“ segir hann. „Við Freyja höfðum það oft gott saman. Svo það hafa verið margar mismunandi tilfinningar en síðustu árin, kannski 3-4 ár, töluðum við mikið um föður minn og samband þeirra og hvernig við gætum hjálpað honum.“

Hér má sjá þáttinn í heild sinni: