Árni Gils Hjalta­son, sonur afl­rauna­mannsins Hjalta Úrsus, sat sak­laus í fangelsi í 277 daga. Árni Gils var dæmdur í Héraðs­dómi Reykja­víkur til fjögurra ára fangelsis fyrir til­raun til mann­dráps árið 2017 en var sýknaður í Lands­rétti í fyrra. Hjalti Úrsus, faðir Árna, er gestur Sig­mundar Ernis í Manna­málum á Hring­braut í kvöld þar sem hann fer yfir mál sonar síns.

Að sögn Hjalta hófst málið þegar Árni ætlaði að hitta vin­konu sína í Breið­holt þar sem hún var stödd með öðrum manni.

„Hann var náttúr­lega búinn að vera í ein­hvers konar neyslu og rugli og allt það skilurðu og er þarna uppi í Breið­holti og þar er ein­hvers konar, ég get nú kallað þetta jafn­vel bara skipu­lagða glæpa­starf­semi. Það er alltaf eitt­hvað svona ter­ritori­al, þá er maður sem er að selja eitur­lyf á þessu svæði og svo er annar sem er með þetta svæði,“ segir Hjalti.

Þegar komið var í Breið­holt ógnaði um­ræddur maður Hjalta með hnífi og tókust þeir á.

Hjalti: „Svo er hann þarna eitt­hvað og kemur þarna inn og lætur svo­lítið mikið fara fyrir sér fara ein­hvern veginn.“

Sig­mundur: „Og er þá ógnað með hnífi?“

Hjalti: „Já, vin­konan kemur ekki heldur kemur líka maður með hníf og ræðst að honum en hann er náttúr­lega það stór og öflugur að jafn­vel það var ekki nóg.“

Sig­mundur: „Hann er 208.“

Hjalti: „Já, hann er 208 og kannski um 190 kg þarna. Alveg fíl­efldur sko.“

Hélt fyrst að sonur sinn væri sekur

Árni gat varist á­sókn mannsins og hafði hann að lokum undir og kastaði hnífnum í burtu. Árni sleppti manninum sem hljóp í burtu og tók hnífinn með sér en að sögn Hjalta sá ekkert á manninum. Lög­regla kom á vett­vang skömmu síðar og greindi Árni þeim frá at­vikum málsins en það dugði þó ekki til því að sögn Hjalta var „búið að setja hana upp“.

Árni var á­sakaður um að hafa stungið manninn og á­kærður fyrir til­raun til mann­dráps og segist Hjalti upp­haf­lega hafa trúað því að sonur hans væri sekur.

„Ég er úti í Ameríku en svo kem ég heim og þá fæ ég þessar fréttir, Brynja dóttir mín segir mér að hann hafi stungið mann og ég bara já ókei... við sættum okkur við þetta,“ segir Hjalti en bætir við að fljót­lega hafi þó farið að renna á hann tvær grímur.

„Svo segir hann við mig „Í fyrsta lagi pabbi var ég edrú, í öðru lagi kom ég ekki með neinn hníf, í þriðja lagi var ekkert blóð þarna, í fjórða lagi hljóp þessi maður í burtu og í fimmta lagi fór hann sjálfur með hnífinn í burtu.“ Svo skoða ég gögn málsins, þá sé ég það að þar sem átök þeirra eru er ekki einn blóð­dropi. Þá fer kapallinn að rekjast til baka,“ segir Hjalti.

Maðurinn viður­kenndi í héraðs­dómi að hafa sjálfur komið með hnífinn og síðar kom í ljós að gögn lög­reglu í málinu voru öll meira og minna týnd. Árni var engu að síður dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðs­dómi og sat inni á Hólms­heiði í 277 daga.

Hæsti­réttur ó­merkti þó dóminn og vísaði aftur heim í héraðs­dóm sem fjallaði aftur um málið og komst að sömu niður­stöðu. Árni á­frýjaði niður­stöðunni til Lands­réttar sem sýknaði hann að lokum í mars 2021.

Árni Gils í Hæstarétti árið 2017.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

For­dómar og dóm­harka

Að­spurður um hvaða lær­dóm megi draga af málinu segir Hjalti:

„Það eru for­dómar, það er á­kveðin dóm­harka og líka það virðist vera jafn­vel eins og Ríkis­út­varpið sem birtir síðan frétt þarna, þeir hafa verið með tvo til þrjá blaða­menn í öllum sak­fellingunum, þegar Lands­réttur kemur með sýknu­dóminn er enginn. Daginn eftir birta þeir frétt og tala um mann sem var stunginn í höfuðið og allt þetta, þrátt fyrir að Lands­réttur segir að hafna beri þeirri kenningu réttar­meina­fræðings að hann hafi verið stunginn í höfuðið.“

Við­tal Sig­mundar Ernis við Hjalta Úrsus í Manna­málum er á dag­skrá Hring­brautar klukkan 19:00 í kvöld.