„Þá er haustboðinn mættur: biðlisti á frístundaheimili Reykjavíkurborgar.

Við þekkjum þessa árlegu stöðu orðið vel, foreldrar ungra barna í Reykjavík,“ skrifar Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á samfélagsmiðlum í dag, eftir að hún fékk póst um að sonur hennar væri á biðlista um pláss á frístundaheimili en skólinn byrjar í næstu viku.

„Sonur minn er að byrja í fjórða bekk, en þetta hefur verið svona frá því hann byrjaði í skóla,“ upplýsir Diljá Mist í samtali við Fréttablaðið í kvöld, og heldur áfram: „Í fyrra komst hann inn 12 október, og var það því bara púsl dag fyrir dag hver gæti verið honum innan handar.“

Aðspurð segir Diljá að syni hennar hafi þótt leiðinlegt að fá ekki að koma í frístundina síðustu ár, en að hún sé ekki enn búin að segja honum að sagan sé að endurtaka sig.

„Maður á það til að hugsa þetta frá sjálfum sér út af vinnu og öðru, en börnin eru ótrúlega leið yfir þessu. Þetta er frábært starf sem er unnið á þessu frístundaheimili og þau vilja bara fá að vera þarna,“ segir Diljá.

Það er bagalegt að börn fái ekki að byrja í rútínu á haustin

Erfiðara í Reykjavík en hjá nágrannasveitarfélögum

„Mér finnst það líka alltaf jafn merkilegt að það sé allt miklu erfiðara í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum. Vinkona mín býr í Kópavogi og kannaðist ekki við þetta vandamál. Sem og öll börn í Garðabæ sem fá vistun,“ upplýsir Diljá og segir að ástæðan sé oftast að það sé ekki komin stundatafla hjá starfsmönnum frístundaheimilana, sem eru oft námsmenn. „Það eru fleiri atvinnurekendur sem reiða sig á vinnuframlag skólafólks sem veltur á stundatölfu starfsmanna.“

„Það er bagalegt að börn fái ekki að byrja í rútínu á haustin, verandi að koma úr löngu rútínuleysi sumarfrísins,“ segir Diljá.