Þóra Einarsdóttir söngkona segir kjör og starfsvettvang söngvara á Íslandi talsvert verri en í nágrannalöndum. Hið opinbera hafi náð að tryggja ákveðin starfsvettvang leikara, dansara og hljóðfæraleikara sem miðast við ákveðna taxta og meðfylgjandi lögbundin réttindi en ekkert sambærilegt sé í boði fyrir söngvara á Íslandi.

Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá stefnir Þóra Íslensku óperunni fyrir brot á samningum við æfingar og uppfærslu óperunnar Brúðkaup Fígarós í fyrra. Allir helstu söngvarar, sem léku aðalhlutverkin í sýningunni, hafa einnig leitað til stéttarfélaga vegna samningsbrota af hálfu Íslensku óperunnar.

Óperustjóri mætti ekki í Héraðsdóm

Aðalmeðferð í máli Þóru gegn ÍÓ fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 11. desember. Málið snýst um að Óperan gerði verktakasamninga við söngvara í Brúðkaupi Fígarós þar sem vísað er í kjarasamning FÍH en greiddi svo ekki samkvæmt þeim samningi.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri mætti ekki í aðalmeðferð þrátt fyrir að aðilar höfðu óskað eftir því að ræða við hana. Auk þess mætti enginn úr stjórn Íslensku óperunnar.

Brynjólfur Eyvindsson, lögmaður Þóru, lýsir yfir vonbrigðum að óperustjóri hefði ekki séð sér fært að mæta fyrir réttinn þar sem hún hefði hugsanlega getað varpað einhverju ljósi á málið. Dómarinn í málinu segir líklegt að dómur verði felldur fyrir jól en hann yrði fordæmisgefandi þar sem aðrir söngvarar bíða á hliðarlínunni til þess að stefna Óperunni á eftir Þóru.

Frétt uppfærð 14. desember klukkan 10:35

Áður kom fram í fréttinni að Steinunn Birna óperustjóri hafi ekki mætt í þingsal þrátt fyrir að hafa verið boðuð. Viðar Lúðvíksson, lögmaður Íslensku óperunnar, segir þetta rangt.

Hér er ranglega farið með staðreyndir málsins. Hið rétta er að hvorki Steinunn Birna Ragnarsdóttir né nokkrir úr stjórn umbjóðanda míns voru boðuð til að mæta eða gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins.“

Steinunn Birna óperustjóri.

Nefnd um stofnun þjóðaróperu tekur til starfa

Fagfólk í óperu hefur lengi kallað eftir stofnun þjóðaróperu til að sporna við einokun ÍÓ á óperuvettvangi. Með nýjum sviðslistalögum sem tóku gildi í júlí í fyrra var samþykkt að nefnd um stofnun þjóðaróperu taki til starfa. Markmiðið er að styðja sérstaklega við óperustarfsemi hér á landi ásamt því að kanna kosti og galla stofnunar þjóðaróperu.

Heimildir Fréttablaðsins herma að fagfélögin hafi þurft að ýta mikið við mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þess að nefndin yrði skipuð en ekkert ætlaði að hreyfast í því máli. Skipunarbréf voru að lokum send út eftir tilnefningar um miðjan nóvember.

Upplýsingafulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins staðfestir að það hafi tekið nokkurn tíma að ákveða samsetningu nefndarinnar. Í skipunarbréfi er mælst til þess að nefndin ljúki störfum fyrir 31. janúar næstkomandi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson / GVA

Allt á eigin kostnað

Þóra birti færslu í dag þar sem hún óskaði söngkonunni Álfheiði Guðmundsdóttur til hamingju með glæsta frammistöðu með Sinfóníuhljómsveit Íslands síðastliðinn fimmtudag og velti á sama tíma upp spurningu um stöðu söngvara.

„Ungum söngkonum á borð við Álfheiði sem eru það framúrskarandi að þær fá aðalhlutverk í óperu, býðst að koma til Íslands á eigin kostnað til þess að gleðja Íslendinga og styðja við óperuflutning á Íslandi. Þær læra og undirbúa hlutverk á eigin kostnað og fá svo að æfa í eins og sex vikur, sex daga vikunnar fyrir 300.000,- heildarverktakagreiðslu. Þær fá ekki greiddan uppihaldskostnað þó þær búi í útlöndum og ekki heldur yfirvinnu auk þess að afsala sér öllum flytjendarétti. Ákvæði í samningi FÍH og Óperufyrirtækisins um vinnuvernd eru ekki virt. Þær eru ekki í sterkri samningsstöðu gagnvart eina fyrirtækinu sem stendur fyrir óperuflutningi.“

Þóra segist vonast til þess að staðan batni og hvetur söngvara til að sýna samtakamátt.