Árni Grétar Jóhanns­son eig­andi skemmti­staðarins Kiki Qu­eer Bar við Lauga­veg segir rekstrar­aðila í mið­bænum gera allt sem í sínu valdi stendur til að tryggja öryggi gesta. Veru­leikinn sé ekki endi­lega sá að það sé stór­hættu­legt að fara niður í bæ líkt og banda­ríska sendi­ráðið hafi lagt upp með í við­vörun til banda­rískra ríkis­borgara.

Eins og fram hefur komið hyggst lög­regla vera með aukinn við­búnað í mið­bænum um helgina og þá búa starfs­menn sig á bráða­mótt­töku undir eril­sama helgi. Allt eftir að skila­boð gengu manna á milli á sam­fé­lags­miðlum í gær um að í skipu­lagningu væri meint hefndar­á­rás vegna hnífs­tungu á Banka­stræti Club síðustu helgi sem mögu­lega myndi einnig beinast að sak­lausum borgurum.

„Því miður er þetta á­kveðinn veru­leiki þó ég haldi reyndar að það sé ekkert sér­lega kæn her­mennska að henda í leiftur­sókn sem allir vita af en engu að síður þá fylgjumst við með þessu og látum öryggi okkar gesta njóta vafans,“ segir Árni.

„Við verðum með aukna öryggis­gæslu um helgina og höfum raunar verið með meiri gæslu en þörf krefur á lengi. Við höfum skynjað í langan tíma á­kveðinn óróa í mið­bænum þó að 99 prósent gesta komi með ást og gleði og skemmtun í far­teskinu,“ segir Árni.

Hann segir spennuna síst hafa minnkað á heims­far­aldurs­tímanum. „Og það er þó nokkuð síðan að allt okkar gæslu­fólk fór í stungu­held vesti. En það er bara af því að við viljum alltaf láta öryggi okkar starfs­fólks og gesta vera í fyrsta sæti.“

Mikil­vægt að ala ekki á ótta

Árni segir að­spurður það auð­vitað erfitt fyrir rekstrar­aðila þegar fólk sé hvatt til þess að mæta ekki í mið­bæinn, líkt og í þeim skila­boðum sem gengu manna á milli um meinta hættu í mið­bænum næstu helgi og við­vörun banda­ríska sendi­ráðsins.

„Ég held að það sé kannski full langt gengið að vara er­lenda gesti við, af því að við verðum líka bara að treysta því að það sé fag­fólk til staðar á stöðunum sem kunni og geti höndlað þetta, svo ekki sé minnst á að sam­starf skemmti­staða við lög­regluna og Reykja­víkur­borg hefur aldrei verið meira, virkara og betra“ segir Árni.

„Sér­stak­lega þegar þetta er komið í svona mikla um­ræðu og þá eru kannski minni líkur á að það verði af ein­hverju svona. En það breytir því ekki að Ís­land er að ein­hverju leyti breytt og við verðum að taka mið af því án þess að ala á ótta,“ segir Árni.

Hann segist hafa fullan skilning á því að hver og einn verði að gera það upp við sig hvað við­komandi treysti sér til. „En þessi söngur um að mið­bærinn sé ekki öruggur og að hér séu ekkert nema fullir ribb­aldar er ekki nýr af nálinni og við vitum það að þetta er ekki veru­leikinn,“ segir Árni.

„Ég sem skemmti­staða­eig­andi er ekki að fara að segja þessu fólki hvernig það á að lifa sínu lífi en það eina sem ég get sagt er að við gerum okkar allra besta til að tryggja öryggi allra.“