Að­koma Ís­lenskrar erfða­greiningar (ÍE) að skimunar­verk­efni stjórn­valda við landa­mærin hefur nánast að öllu leyti byggt á munn­legu sam­komu­lagi milli Kára Stefáns­sonar, for­stjóra ÍE, og Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis. Þeir hafa rætt að Kári myndi senda ríkinu reikning fyrir þá þjónustu sem fyrir­tæki hans hefur lagt fram en það hefur séð um mikinn meiri­hluta skimana fyrir kórónu­veirunni á landinu.

Vildi ekki skriflegan samning


Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Kjartan Hreinn Njáls­son, að­stoðar­maður land­læknis, að Kári hafi ekki viljað gera skrif­legan samning við ríkið um þjónustuna. Því hafi sú leið verið farin, sem Kári vildi fara, að gera munn­legt sam­komu­lag milli hans og Þór­ólfs. Kjartan segir þó að ÍE vinni verk­efnið fyrir til­stilli verk­samnings sem fyrir­tækið hafi gert áður við sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítala og var síðast endur­nýjaður árið 2015. Þannig hefur ÍE staðið í greiningu fyrir Land­spítalann á ýmsum sýnum á síðustu árum.

„Það hefur ekki verið neitt rætt um hvað myndi felast í honum“

Frétta­blaðið náði tali af Þór­ólfi eftir fund hans með for­sætis­ráð­herra í dag en á­samt þeim sátu bæði land­læknir og Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna, fundinn. Þór­ólfur sagði þá að­spurður að ríkið hefði enn ekki greitt Ís­lenskri erfða­greiningu neitt fyrir þátt sinn í skimunar­verk­efninu.

Enginn reikningur komið enn


Um það hvort rætt hafi verið um ein­hvers konar greiðslu segir hann: „Já, já, það hefur komið fram áður að hann [Kári] myndi þá senda reikning. Það hefur ekki komið neitt enn svo ég viti til.“

Hann segir þá að þeir Kári hafi ekki rætt ná­kvæm­lega fyrir hvað hann gæti sent ríkinu reikning: „Það var ýmis­legt sem var uppi á borðinu. Eins og ég segi það hefur ekki verið neitt rætt um hvað myndi felast í honum,“ segir Þór­ólfur.

Kári til­kynnti í gær að Ís­lensk erfða­greining ætlaði að draga sig al­farið út úr skimunar­verk­efninu frá og með næsta mánu­degi. Sótt­varna­læknir, land­læknir og al­manna­varnir funduðu um fram­hald verk­efnisins með for­sætis­ráð­herra áðan og munu ræða hvort og þá hvernig skimun við landa­mærin verði þegar ÍE hættir á upp­lýsinga­fundi sem hefst í dag klukkan 14.