Hafnarfjarðarbær hafði útbúið samning við Kviku banka um að fjármálafyrirtækinu yrði falið að annast söluferli á eignarhlut bæjarins í HS Veitum, áður en tekin var ákvörðun í bæjarráði um að selja hlutinn.

„20. apríl var haldinn fjarfundur þar sem fyrst var fjallað um þetta. Samningurinn við Kviku banka er svo dagsettur 24. apríl. Ég hafði á tilfinningunni að það hefði eitthvað verið í gangi sem við vissum ekki af,“ segir Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Hún óskaði eftir öllum gögnum um samninginn og fékk svör þann 3. júní. Það var svo bæjarbúi sem fékk upplýsingar sem var ekki að finna í svörum bæjarins við fyrirspurn hennar. Þar á meðal tölvupóstar frá Kviku frá því í mars. „Ég er bæði ósátt við að við vorum ekki upplýst um þetta og að við höfum ekki fengið svör þegar við lögðum fram fyrirspurn.“

Uppfært 09:15

Í upprunalegu útgáfu fréttarinnar segir að samningurinn hafi verið gerður, hið rétta er að hann var útbúinn.