Sölvi Tryggva­son hefur sett í loftið fjóra nýja hlað­varps­þætti. Þeir birtust á streymis­veitum í kvöld. Þetta eru fyrstu nýju þættirnir sem Sölvi gefur út frá því öll hlað­varpsserían hans, Pod­cast með Sölva Tryggva, var fjar­lægð af veitunum í maí í fyrra. Gömlum þáttum hefur svo statt og stöðugt verið hlaðið upp að nýju síðustu mánuði.

Við­mælendur í nýju þáttunum eru geð­læknirinn Haraldur Er­lends­son, lög­fræðingurinn og mark­þjálfinn Sara Odds­dóttir, mynd­lista-og spá­konan Ellý Ár­manns og Númi Katrínar­son, eig­andi líkams­t­ræktar­stöðvarinnar Granda 101. Munu nýir þættir koma út vikulega og verða aðgengilegir á áskriftarsíðu Sölva.

Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst hefur Sölvi þegar tekið mikið af við­tölum fyrir þá þætti sem hann hyggst birta á næstunni.

Verða meðal við­mælenda fyrr­verandi land­búnaðar­ráð­herra Guðni Ágústs­son, ofur­fyrir­sætan Ás­dís Rán, lög­fræðingurinn Eva Hauks­dóttir, tón­listar­maðurinn Haffi Haff, sam­fé­lags­miðla­stjarnan Nökkvi Fjalar og Ögmundur Jónas­son, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra.

Fyrstu þættirnir í meira ár

Þættirnir höfðu áður verið meðal vin­sælustu hlað­varps­þátta landsins en lítið sem ekkert hafði heyrst frá Sölva frá því sögu­sagnir um að hann hefði beitt vændis­konu of­beldi fóru á kreik á sam­fé­lags­miðlum í lok apríl á síðasta ári.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­reglu og ó­nafn­greindum lög­manni mannsins sem framdi brotið var ekki um Sölva að ræða í því máli. Sjálfur hafði Sölvi á­vallt neitað sök á sam­fé­lags­miðlum.

„Síðustu daga hafa gengið ótrúlega rætnar slúðursögur um mig í þjóðfélaginu sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ skrifaði Sölvi í Instagram færslu sem birtist þann 3. maí 2021.

Frétta­blaðið greindi svo í kjöl­farið, þann 5. maí 2021, frá því að tvær konur hefðu leitað til lög­reglu vegna meints of­beldis af hálfu fjöl­miðla­mannsins.

Önnur konan kærði Sölva fyrir líkams­á­rás og kvað at­vikið hafa átt sér stað þann 14. mars 2021. Blaðinu er ekki kunnugt um hver staðan er í þeim málum.

Skömmu áður hafði Sölvi rætt málið við lög­mann sinn í eigin hlað­varps­þætti. Eftir að Frétta­blaðið greindi frá máli kvennanna tveggja dró Sölvi sig úr um­ræðunni og tók hlað­varps­þætti sína úr loftinu. Undan­farna mánuði hefur þeim verið hlaðið jafnt og þétt aftur inn á streymis­veitur.

Í lok desember var svo greint frá því að Sölvi hygðist birta sjö til átta ó­birta hlað­varps­þætti, meðal annars við­töl við Her­mann Hreiðars­son, Boga Ágústs­son og Krumma Björg­vins­son sem allir fóru þess á leit við Sölva að hann birti við­tölin ekki.