Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ekki hafa neinn áhuga á að bjóða sig aftur fram sem varaforseti Alþýðusambands Íslands. Hún, Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson drógu öll framboð sín til baka og gengu út af þingi sambandsins í gær.
Til stóð að kjósa forseta, ásamt öðrum embættum ASÍ, í dag en þinginu var frestað um sex mánuði.
„Nei, guð minn góður. Ég tala bara fyrir mig en mér dettur það ekki til hugar. Ég hef ekki áhuga á því,“ sagði Sólveig Anna, aðspurð að því hvort hún ætlaði að bjóða sig fram þegar þingið kæmi aftur saman.
Hún segist hafa búist við því að þingið yrði klárað og gengið yrði til kosninga. „Ég bjóst við því að fólk myndi bara ganga til kosninga og klára þetta.“

Ræðir við félaga Eflingar um atburðarásina
Sólveig Anna segist halda til fundar í dag með félögum Eflingar, en þar munu þau ræða atburðarás þingsins. „Þar munum við ræða atburðarás þessa þings, fara yfir stöðuna og velta því fyrir okkur hvað við viljum gera,“ segir hún.
Hún bendir á að innan skamms verði stjórnarfundur og fundur í trúnaðarráði Eflingar, „þar sem virkir félagar í Eflingu fara yfir þessi mál og hvað við viljum gera. Það eru næstu skref.“
Aðspurð að því hvort rætt verði í dag um framtíð Eflingar innan ASÍ segist hún efa að það verði farið beint í það samtal. „Ég hugsa að við förum frekar í það samtal að reyna að fara yfir atburðarásina og átta okkur á því nákvæmlega hvað gerðist.“
„Svo ímynda ég mér að hitt samtalið hefjist fremur fljótlega,“ segir Sólveig Anna.