Sólveigu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Fimleikasambandsins, var skiljanlega brugðið þegar Fréttablaðið ræddi við hana en hún var tiltölulega nýfarin úr miðbæ Istanbúl þegar sprengja sprakk sem tyrknesk yfirvöld hafa lýst sem hryðjuverki.

Sólveig var upp á hóteli þegar Fréttablaðið ræddi við hana en hún hefur verið viðstödd ársþing Alþjóðafimleikasambandsins í Tyrklandi undanfarna daga.

„Ég var niðri í miðbæ í dag og hoppaði upp í leigubíl, sennilega hálftíma áður en þetta gerðist. Ég byrjaði að fá helling af skilaboðum þegar ég kom upp á hótelið,“ segir Sólveig.

Hún segir erfitt að lýsa andrúmsloftinu.

„Þetta er svolítið sérstakt en samt get ég lítið sagt. Fólk er mikið að tala um þetta á hótelinu.“